Jökull Elísabetarson þjálfari Stjörnunnar var ánægður með sitt lið eftir að þeir unnu ÍA á Akranesvelli í kvöld.
Lestu um leikinn: ÍA 1 - 3 Stjarnan
„Mér fannst við bara hafa mjög mikla yfirburði í þessum leik. Alveg frá því að hann byrjaði og þangað til honum lauk. Það var mjög gaman að horfa á liðið í dag, ég held að allir Stjörnumenn sem horfðu á það geta verið stolt Lið sem kemur á svona völl og spilar svona fótbolta, þetta er þungur völlur, en góður samt. Þannig að mjög gaman að horfa á liðið í dag."
Jökull gerði 7 breytingar á byrjunarliði sínu fyrir þennan leik og setti einnig inn á 2 leikmenn sem voru að spila sinn fyrsta leik fyrir Stjörnuna.
„Við stilltum upp mjög sóknarsinnuðu liði, við vorum með Jóhann Árna og Danna Finns í bakvörðunum. Þeir voru virkilega flottir og gáfu okkur mjög mikið og allir sem tóku þátt. Auðvitað er gaman fyrir Jón Hrafn og Sigga (Sigurður Gunnar Jónsson) að spila sinn fyrsta leik fyrir Stjörnuna í svona leik. Að koma inn þegar staðan var eins og hún var og taka þátt í að snúa þessu við. Frábært hjá liðinu í dag, öllum."
Með þessum úrlistum eru Stjörnumenn komnir aðeins stigi frá ÍA sem er í 5. sæti deildarinnar. Evrópu baráttan er því farin að vera spennandi en Jökull kýs að einbeita sér að næsta leik sem er einmitt leikur í Sambandsdeildinni.
„Við höldum bara áfram og setjum núna fókus á Evrópukeppnina. Svo eigum við leik, annað hvort um næstu helgi eða fljótlega eftir helgina, það fer eftir hvernig fer í Evrópu. Núna bíðum við bara með að pæla eitthvað í deildinni þangað til eftir fimmtudag."
Stjarnan mæti Paide frá Eistlandi næstkomandi fimmtudag. Þeir eru með 2-1 forystu eftir fyrri leikinn sem fór fram síðasta fimmtudag.
„Ég auðvitað hefði viljað fara með stærri forystu þangað út, það er alltaf erfitt að fara á útivöll. Við ætlum að fara mjög grimmir í þann leik, ég bara hlakka til að sjá liðið þar mæta til leiks. Menn voru ósáttir eftir síðasta leik, mönnum fannst eins og þeir hefðu átt að taka meiri forystu úr þessu. Þannig við munum mæta með því hugarfari í þennan leik og bara vera grimmir."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.