Jón Þór Hauksson þjálfari ÍA var svekktur með úrslit kvöldsins eftir að liðið hans tapaði 3-1 gegn Stjörnunni.
Lestu um leikinn: ÍA 1 - 3 Stjarnan
„Þetta var hörku leikur, við lögðum mikla vinnu í þennan leik og náðum að koma okkur í góða stöðu til þess að vinna þennan leik. En þeir gerðu vel í því að nýta sér okkar mistök og að sama skapi vorum við klaufar að nýta ekki þau tækifæri sem við fengum til þess að klára leikinn."
Skagamenn fengu nokkur dauðafæri í leiknum sem hefði getað fært þeim sigurinn ef þeir hefðu klárað þau færi.
„Öll töp eru svekkjandi og auðvitað sérstaklega þegar að okkur líður að við höfum öll tök á að vinna þennan leik en gerum það ekki. Auðvitað er það fúlt. Við viljum ekki tapa neinum leikjum hérna heima þannig menn eru virkilega svekktir og súrir með það. Við þurfum bara að sætta okkur við þá niðurstöðu og halda áfram."
Stjörnumenn náðu að stýra leiknum mjög vel og Skagamenn náðu lítið að halda í boltan í þessum leik.
„Mér fannst við líka bara klaufar á köflum þegar við vorum með hann að tengja spilið, láta boltan ganga og fara í þau svæði sem við vildum koma okkur í. Við sköpum okkur alveg nægilega mörg tækifæri til þess að vinna þennan leik. Vissulega voru sendingar sem klikkuðu og leiðir sem við gátum farið sem við völdum okkur ekki. En við töpuðum ekki leiknum á því, við bara nýtum ekki þau tækifæri sem við fáum til að klára leikinn og þeir refsa okkur grimmilega fyrir það."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.