„Tilfinningin er mjög ljúf, þetta var geggjað hérna í lokin - uppskera seinni hálfleiksins sem var mjög vel spilaður af okkar hálfu; mjög taktíkst spilaður, engin mistök og við herjuðum kerfisbundið á þá. Þeir voru farnir að þreytast og við náðum að nýta okkur það sem betur fer. En fyrstu 25 mínúturnar voru algjörlega eign KA manna, þeir voru frábærir og við áttum engin svör. Sem betur fer þá fengum við ekki á okkur mark á því tímabili," sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings eftir sigurinn gegn KA í dag.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 1 - 0 KA
„Við vorum beinskeyttari og vorum ekki beint að fá á okkur dauðafæri. Þetta eru bara tvö mjög góð lið að spila og við höfum alltaf átt mjög erfiða leiki á móti KA. Það var engin breyting þar á í dag."
„Þeir voru bara mjög þéttir í sínum að gerðum og við vorum ekki alveg að finna taktinn okkar. Við breyttum aðeins í seinni hálfleik, Pablo var mjög klókur í að draga sig út úr svæðum og fá bakverðina aðeins hærra upp. Þar af leiðandi komu betri krossar og við náðum að nýta okkur það. En þessir leikir eru eintóm skák orðnir, það eru allir farnir að greina alla mjög vel, þannig þú þarft að bregðast við á meðan leik stendur. Við gerðum það sem betur fer."
Í aðdraganda marksins var veittur hagnaður þegar Dusan Brkovic og Nikolaj Hansen fóru í návígi. Boltinn barst út til hægri, fyrirgjöf og mark. Arnar var spurður hvort hann væri ekki ánægður að ekki var dæmt brot í því atriði.
„Frábær dómgæsla og akkúrat það sem dómarar eiga að spotta og gerðu það mjög vel í þetta skiptið. Þeim ber að hrósa fyrir það, mjög vel gert," sagði Arnar.
Gunnar Vatnhamar skoraði sigurmarkið og Arnar hrósaði hónum í hástert. „Frábært fyrir hann, búinn að koma ótrúlega öflugur inn í okkar lið. Hann er betri leikmaður en ég hélt, þó að ég hélt alveg að hann væri góður. Hann er taktískt sterkur og góður karakter. Forréttindi að fá að þjálfa þennan dreng. Hann er alltaf viljugur að mæta og gefa allt sitt í æfingar. Hann er búinn að koma mjög öflugur inn í okkar klúbb."
Viðtalið við Arnar er aðeins lengra og má sjá það í heild sinni í spilaranum að ofan.
Athugasemdir