Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 29. nóvember 2022 10:02
Elvar Geir Magnússon
Andy Gray íhugaði að taka eigið líf þegar hann var rekinn frá Sky Sports
Andy Gray í viðtali.
Andy Gray í viðtali.
Mynd: Getty Images
Andy Gray heimsótti Ísland á sínum tíma.
Andy Gray heimsótti Ísland á sínum tíma.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Íþróttafréttamaðurinn Andy Gray segist hafa íhugað að taka eigið líf þegar hann var rekinn frá Sky Sports snemma árs 2011.

Gray og starfsfélagi hans Richard Keys voru látnir fara eftir að myndband lak út þar sem þeir voru með kvenfyrirlitningu bak við tjöldin í garð dómarans Sian Massey-Ellis.

Þeir sögðu útilokað að hún kynni rangstöðuregluna þar sem hún væri kona og sögðu að konur ættu ekki að starfa við karlaleiki.

Keys og Gray fluttu á endanum til Katar þar sem sjónvarpsstöðin beIN Sports réði þá til starfa. Þar hafa þeir unnið síðan sumarið 2013 og gera enn.

„Eftir að ég var rekinn var ég skyndilega kominn á mjög dimman stað. Húsið mitt var umkringt fólki og ég vissi að ég hefði gert eitthvað rangt. Auðvitað gerði ég það en ég gat ekki búið mig undir afleiðingarnar," segir Gray í viðtali við Piers Morgan.

„Hausinn var algjörlega farinn, ef ekki hefði verið fyrir eiginkonu mína þá veit ég ekki hvað hefði gerst. Rachel var mögnuð. Ég var nálægt því að fara út í garð, þar sem ég var með litla tjörn, með litla flösku og nokkrar pillur. Ég var það slæmur á sínum tíma... það er skrítið að hugsa til þess. Ég er kominn út úr þessu í dag."

Gray segir að það hafi verið erfitt að vera með fjölmiðlamenn fyrir utan húsið sitt í tvær vikur. Það hafi verið skelfileg lífsreynsla en hann hafi komist í gegnum erfiða tíma með aðstoð eiginkonu sinar, fjölskyldu og vina.

Gray var skoskur landsliðsmaður á leikmannaferli sínum og lék meðal annars með Aston Villa, Wolves, Everton og Rangers.
Athugasemdir
banner
banner