Forkeppni Meistaradeildarinnar er í fullum gangi og á Breiðablik heimaleik gegn pólsku meisturunum í Lech Poznan síðdegis.
Blikar mæta inn í leikinn með það að markmiði að gera sitt besta, spila agaðan fótbolta og reyna að læra eitthvað gegn sterkum andstæðingum.
Kópavogsstrákarnir eiga ekki raunhæfa möguleika á að komast áfram í næstu umferð eftir 7-1 tap í fyrri leiknum í Póllandi.
Breiðablik spilaði vel fyrsta hálftímann í þeim leik og var staðan 1-1 þegar Viktor Örn Margeirsson var rekinn af velli með beint rautt spjald fyrir brot sem aftasti maður og þá misstu menn haus. Lech skoraði fjögur mörk í viðbót fyrir leikhlé svo staðan var allt í einu orðin 5-1 þegar flautað var til hálfleiks.
Blikar fara því niður í forkeppni Evrópudeildarinnar og leika við Zrinjski Mostar í annað sinn á þremur keppnistímabilum. Þeir eiga harma að hefna í Bosníu eftir 6-3 samanlagt tap síðast þegar liðin mættust í forkeppni Evrópudeildarinnar fyrir tveimur árum síðan.
Það eru fleiri áhugaverðir slagir á dagskrá þar sem Arnór Sigurðsson og Daníel Tristan Guðjohnsen í liði Malmö eiga leik við RFS frá Lettlandi. Malmö vann fyrri leikinn 4-1.
Lærisveinar Freys Alexanderssonar í liði Brann heimsækja RB Salzburg til Austurríkis eftir stórt tap á heimavelli í fyrri leiknum og geta því búist við að falla niður í forkeppni fyrir Evrópudeildina. Eggerton Aron Guðmundsson og Sævar Atli Magnússon eru báðir á mála hjá félaginu.
Sverrir Ingi Ingason og félagar í Panathinaikos taka á móti Rangers eftir að hafa tapað fyrri leiknum 2-0 á meðan Guðmundur Þórarinsson og liðsfélagar hans í liði FC Noah eiga afar erfiðan útileik gegn ungversku risunum í Ferencvaros. Noah tapaði heimaleiknum með eins marks mun og þarf því sigur til að detta ekki niður í Evrópudeildina.
Meistaradeildin
16:00 Qarabag - Shelbourne
17:00 Malmo FF - Rigas FS
17:30 Steaua - Shkendija
17:30 Ludogorets - Rijeka
18:00 Ferencvaros - Noah
18:00 Maccabi Tel Aviv - Pafos FC
18:00 Panathinaikos - Rangers
18:30 Breiðablik - Lech
18:45 Salzburg - Brann
19:00 Servette - Plzen
Athugasemdir