Man Utd gæti reynt við Pope - Arsenal vonar að Palace lækki verðið á Eze
   mið 30. júlí 2025 07:20
Ívan Guðjón Baldursson
Atlético kaupir Millot - Lemar og Lino á förum
Millot vann þýska bikarinn með Stuttgart í vor.
Millot vann þýska bikarinn með Stuttgart í vor.
Mynd: EPA
Lemar er 29 ára gamall. Hann varð heimsmeistari með Frakklandi 2018 og hefur ekki spilað fyrir landsliðið síðustu fjögur ár.
Lemar er 29 ára gamall. Hann varð heimsmeistari með Frakklandi 2018 og hefur ekki spilað fyrir landsliðið síðustu fjögur ár.
Mynd: EPA
Spænska stórveldið Atlético Madrid er að eiga mjög virkt sumar á félagaskiptamarkaðinum.

Atlético er að ganga frá kaupum á franska sóknartengiliðnum Enzo Millot sem mun berjast við Thiago Almada og Antoine Griezmann um sæti í byrjunarliðinu í holunni fyrir aftan fremsta mann.

Thomas Lemar og Rodrigo Riquelme voru í þeirri stöðu á síðustu leiktíð en verða ekki áfram með hópnum á næsta tímabili. Lemar verður lánaður til Girona út leiktíðina á meðan Riquelme var seldur til Real Betis. Fabrizio Romano segir að Atlético borgi helminginn af launum Lemar hjá Girona.

Millot er 23 ára Frakki sem kemur úr röðum Stuttgart fyrir 25 milljónir evra. Hann kom að 20 mörkum í 43 leikjum með Stuttgart á síðustu leiktíð.

Millot hefur verið lykilmaður upp yngri landslið Frakka og fór með U23 liðinu alla leið í úrslitaleik Ólympíuleikanna. Hann er gríðarlega fjölhæfur leikmaður sem getur spilað flestar sóknarstöður.

Atlético er að selja kantmanninn Samuel Lino til að fjármagna kaupin á Millot. Lino er einn af nokkrum öflugum leikmönnum úr evrópska boltanum sem eru á leið til Flamengo í Brasilíu, en hann er 25 ára gamall og kostar 25 milljónir evra.

Stuttgart er að reyna við Giannis Konstantelias hjá PAOK til að taka við af Millot, en gríska félagið vill ekki selja.

Atlético er þegar búið að kaupa Álex Baena, David Hancko, Johnny Cardoso, Thiago Almada, Matteo Ruggeri, Marc Pubill, Juan Musso og Aleksa Puric í sumar, auk þess sem Mario de Luis kom á frjálsri sölu frá erkifjendunum í Real Madrid.

Á sama tíma hafa Reinildo Mandava, Alejandro Iturbe, Saúl Niguez, Rodrigo De Paul og Rodrigo Riquelme yfirgefið félagið á verulega annamiklu sumri.
Athugasemdir
banner
banner