Á morgun tekur Víkingur á móti albanska liðinu Vllaznia í seinni leik liðanna í 2. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni. Fyrri leikurinn endaði með 2-1 sigri albanska liðsins á heimavelli. Leikurinn hefst klukkan 18:45 á Víkingsvelli.
Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings mætti brattur í viðtal á blaðamannafundi sem haldinn var síðdegis.
„Vissulega voru þetta ekki úrslitin sem við vildum í fyrri leiknum, en það var bara fyrri hálfleikur. Nú höfum við heilar 90 mínútur til að spila seinni hálfleikinn.``
Hann telur liðið undirbúnara núna í ljósi þess hve erfitt var að greina albanska liðið fyrir fyrri leikinn.
„Það voru þjálfaraskipti, deildin var ekki byrjuð, við horfðum á æfingaleikina, en núna fengum við skýrari mynd."
„Við þurfum að sleppa tæknilegum mistökum og klafamistökum. Það mun kosta sinn tíma, að öllum líkindum munu þeir reyna að tefja, ef ég þekki þessi lið rétt. Við höfum keppt á móti þeim áður, þannig við vitum svolítið hvernig þeir eru. Þeim leiðist ekki að henda sér niður og tefja."
Hiti á Hlíðarenda í fyrra
Vllaznia mætti Val í forkeppni Sambandsdeildarinnar í fyrra. Mikið gekk á þegar liðin mættu á Hlíðarenda, framkvæmdarstjóri hótaði þar á meðal stjórnarmönnum Vals lífláti og ýmiss konar aðskotahlutum kastað inn á völlinn.
Sölvi vonast til að allt verði með kyrrum kjörum í stúkunni, ef ekki taka reynslumiklir gæslumenn málin í sínar hendur.
„Það vill enginn að það verða vandræði og leiðindi uppi í stúku. Ég veit að Víkingsstuðningsmennirnir hagi sér vel. Ég vona að Stebbi Halldórs og gömlu karlarnir í gæslunni ná að hafa stjórn á þeim."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum fyrir ofan.
Athugasemdir