Freyr Alexandersson og lærisveinar hans í Brann áttu flotta frammistöðu í 1-1 jafnteflinu gegn austurríska liðinu Salzburg í kvöld, en það dugði ekki til að fleyta liðinu áfram í næstu umferð í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.
Brann tapaði heimaleiknum gegn Salzburg, 4-1, og þurfti því kraftaverk til að komast áfram.
Það byrjaði nokkuð vel því Emil Kornvig náði að koma liðinu yfir eftir tæpar þrjár mínútur.
Vonin lifði ekki lengi því aðeins þremur mínútum síðar jafnaði Maurits Kjærgaard metin.
Brann reyndi og reyndi en fleiri urðu mörkin ekki og Brann því á leið í Evrópudeildina.
Eggert Aron Guðmundsson og Sævar Atli Magnússon byrjuðu báðir hjá Brann í dag. Eggert lék allan leikinn en Sævar fór af velli þegar tuttugu mínútur voru eftir.
Andstæðingur Brann í 3. umferð í forkeppni Evrópudeildarinnar verður annað hvort belgíska stórveldið Anderlecht eða sænska liðið Häcken. Það mun ráðast á morgun, en Anderlecht vann fyrri leik liðanna 1-0.
Athugasemdir