Man Utd í viðræðum um Donnarumma - Rodrigo Muniz er orðaður við Newcastle
   mið 30. júlí 2025 16:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Útsendarar lengi fylgst með Rebekku sem verður fimmti atvinnumaður Gróttu
Kvenaboltinn
Rebekka Sif í leik með Gróttu.
Rebekka Sif í leik með Gróttu.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Samdi við Nordsjælland.
Samdi við Nordsjælland.
Mynd: Grótta
Rebekka og Magnús Örn Helgason, yfirmaður fótboltamála hjá Gróttu.
Rebekka og Magnús Örn Helgason, yfirmaður fótboltamála hjá Gróttu.
Mynd: Aðsend
Það var tilkynnt í gærkvöldi að Grótta hefði selt hina bráðefnilegu Rebekku Sif Brynjarsdóttur til Nordsjælland, sem er eitt stærsta félagið í Danmörku.

Rebekka hefur lengi vel verið ein efnilegasta fótboltastelpa Íslands þar sem hún er með 23 leiki að baki fyrir yngri landslið Íslands þrátt fyrir ungan aldur. Hún hefur leikið tvo leiki með U19 landsliðinu þrátt fyrir að vera ekki nema 16 ára.

Nordsjælland er eitt af sterkustu liðum danska kvennaboltans þar sem liðið varð meistari 2024 og endaði í öðru sæti í deild og bikar í ár. Félagið hefur lengi fylgst með Rebekku og hennar framþróun.

„Útsendarar FCN fylgdust fyrst með Rebekku síðasta sumar og lýstu fljótt yfir áhuga á að fá hana til sín á reynslu. Hún fór í febrúar og æfði með þeim í viku, bæði U19 ára liðinu og aðalliðinu, og á fundum kom í ljós að þau höfðu fylgst vel með henni mánuðina á undan," segir Magnús Örn Helgason, yfirmaður fótboltamála hjá Gróttu.

„Viðræður hófust skömmu síðar og lendingin var að nota verslunarmannahelgina sem góðan tímapunkt til að kveðja Gróttu og byrja ný ævintýri í Danmörku. Gróttuliðið mun sakna hennar í síðustu leikjum sumarsins en allir aðilar málsins voru sammála um að það væri dýrmætt fyrir hana að taka þátt í hluta undirbúningstímabilsins hjá Nordsjælland."

Grótta hefur undanfarin misseri fengið margar fyrirspurnir varðandi Rebekku.

„Já, við höfum fengið margar fyrirspurnir frá íslenskum liðum og einhverjum erlendum félögum," segir Magnús.

Erum gríðarlega stolt
Rebekka er yngsta fótboltakonan sem er seld frá Íslandi til erlends félags en hún er ekki fyrsti leikmaðurinn sem fer út frá Gróttu. Önnur dæmi eru Orri Steinn Óskarsson, Hákon Rafn Valdimarsson, Kjartan Kári Halldórsson, Tómas Johannessen og Emelía Óskarsdóttir.

„Auðvitað erum við gríðarlega stolt," segir Magnús.

„Grótta er lítið félag sem keppir sjaldan um titla en það er í okkar DNA að gefa ungu fólki tækifæri, skapa gott umhverfi og hjálpa þeim að komast áleiðis á sínum ferli. Rebekka verður nú fimmti atvinnumaðurinn úr yngri flokka starfi Gróttuog allt hefur þetta gerst á tiltölulega stuttum tíma. Sölurnar á Kjartani Kára og Aufí voru sömuleiðis til fyrirmyndar. Já og Benoný Breki er auðvitað Gróttumaður í bland við ýmislegt annað," segir Magnús og hlær.

„Nú verður Grótta að halda áfram á sömu braut og auðvitað hjálpar það starfinu mikið að hafa þessar frábæru fyrirmyndir sem spila nú erlendis."

Rebekka getur náð mjög langt
Rebekka Sif hefur æft fótbolta með Gróttu frá fjögurra ára aldri og spilaði jafnt með stelpum sem strákum upp yngri flokkana.

Hún hefur skorað níu mörk í 28 leikjum með Gróttu í Lengjudeildinni og er ljóst að hún á framtíðina svo sannarlega fyrir sér í fótboltaheiminum. Hún er komin með fimm mörk í tíu leikjum í Lengjudeildinni í sumar.

„Rebekka getur náð mjög langt og ég tel að hjá Nordsjælland muni hún fá mjög góða þjálfun og leiðsögn og klárlega dýrmæt tækifæri þegar það verður tímabært," segir Magnús en Rebekka er dóttir Brynjars Björns Gunnarssonar, fyrrum landsliðsmanns.

„Hún er tæknilega góð og býr yfir góðri skottækni og sendingum með vinstri. Rebekka skynjar vel það sem er að gerast í kringum sig inni á vellinum og er fljót að hugsa. Svo má ekki gleyma því að hún ótrúlega dugleg og vinnusöm og með keppnisskap í hæsta klassa," segir Magnús að lokum.
Athugasemdir
banner
banner