Guðmundur Þórarinsson lagði upp mark í 4-3 tapi FC Noah gegn Ferencvaros í 2. umferð í forkeppni Meistaradeildarinnar í kvöld, en Ferencvaros mun taka sæti í 3. umferðinni á meðan Noah fer í forkeppni Evrópudeildarinnar.
Selfyssingurinn lagði upp þriðja mark Noah í leiknum, sem kom á mikilvægum tímapunkti er Noah var einu marki undir. Það gaf Noah von sem Barnabas Varga slökkti í nokkrum mínútum síðar með fjórða marki Ungverjana.
Noah er því á leið í 3. umferð í forkeppni Evrópudeildarinnar þar sem það mætir Lincoln Red Imps frá Gíbraltar.
Sverrir Ingi Ingason var á bekknum hjá Panathinaikos sem gerði 1-1 jafntefli við skoska stórliðið Rangers. Grikkirnir töpuðu fyrri leiknum 2-0 í Skotlandi og eru því úr leik í Meistaradeildinni.
Panathinaikos fær ekki auðveldan andstæðing í Evrópudeildinni, en þar mætir það annað hvort Ole Gunnar Solskjær og lærisveinum hans í Besiktas eða úkraínska stórveldinu Shakhtar Donetsk.
Leikirnir fara fram 7. og 14. ágúst.
Athugasemdir