Manchester City festi kaup á markverðinum James Trafford í gær og er núna með þrjá öfluga markmenn í hópnum.
Galatasaray reyndi að kaupa Ederson en náði ekki samkomulagi við Man City um kaupverð. Brasilíski markvörðurinn verður því að öllum líkindum áfram í Manchester á meðan Stefan Ortega hefur fengið skilaboð um að hann megi finna sér nýtt félag.
Ortega er 32 ára gamall og vill skipta um félag til að verða aðalmarkvörður fyrst City virðist ekki vera tilbúið til að gefa honum traustið.
Ortega átti frábært tímabil 2023-24 en stóð sig ekki nægilega vel á síðustu leiktíð og fær því ekki tækifæri sem aðalmarkvörður.
Hann var aðalmarkvörður Arminia Bielefeld í Þýskalandi áður en hann fór yfir til City á frjálsri sölu fyrir þremur árum, en á þeim tíma hefur hann fengið að spila 56 keppnisleiki, þar af 25 í úrvalsdeildinni.
Ederson er kominn inn á sitt síðasta samningsár hjá City en mögulegt er að hann framlengi. Ederson verður 32 ára í ágúst og hefur spilað 372 keppnisleiki með City. Hann á 29 landsleiki að baki fyrir þjóð sína en þeir væru fleiri ef ekki vegna mikillar samkeppni við Alisson Becker.
Athugasemdir