Man Utd gæti reynt við Pope - Arsenal vonar að Palace lækki verðið á Eze
   mið 30. júlí 2025 11:00
Ívan Guðjón Baldursson
Ugarte: Klefinn stendur við bakið á Amorim
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Úrúgvæski miðjumaðurinn Manuel Ugarte hefur mikla trú á Rúben Amorim þjálfara Manchester United og segir að liðsfélagarnir séu á sömu blaðsíðu.

Ugarte talar um að klefinn hjá Rauðu djöflunum sé sameinaður þar sem leikmenn eru staðráðnir í því að gera góða hluti fyrir þjálfarann sinn og félagið. Þeir þurfa að bæta upp fyrir síðustu leiktíð sem var hörmuleg.

Ugarte þekkir Amorim vel eftir að þeir störfuðu einnig saman hjá Sporting CP í portúgalska boltanum áður en miðjumaðurinn var keyptur til PSG og síðar Man Utd.

„Við erum allir mjög metnaðarfullir. Við viljum bæta okkur útaf því að við trúum á þjálfarann. Við trúum á hans hugmyndir og það er mjög mikilvægt. Síðasta leiktíð var tímabil mikilla umbreytinga þar sem við skiptum um þjálfara og breyttum um leikkerfi. Núna þurfum við að sýna árangur," sagði Ugarte við fjölmiðlamenn í Bandaríkjunum þar sem Man Utd er í æfingaferð.

Man Utd gerði markalaust jafntefli við Leeds United í Svíþjóð áður en leikmenn flugu til Bandaríkjana og lögðu West Ham að velli á MetLife Stadium. Rauðu djöflarnir spila svo við Bournemouth á morgun í Chicago og halda til Atlanta eftir það til að spila við Everton.

Síðasti æfingaleikurinn er svo 9. ágúst, á heimavelli gegn Alberti Guðmundssyni og félögum í Fiorentina.

„Því fylgir ábyrgð að spila fyrir United. Stundum tekur tíma fyrir leikmenn að kynnast og venjast hvorum öðrum innan vallar og meðtaka allar hugmyndir þjálfarans um leikstíl."
Athugasemdir
banner
banner