„Er stoltur af liðinu. Við vissum að þetta yrði mjög erfiður leikur í ljósi þess að menn voru farnir að reikna með því að ÍBV myndi vinna. Þá setur það öðruvísi pressu á okkur og við stóðum undir því," sagði Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV, eftir sigur á ÍA í dag.
ÍBV spilaði með vindinn í bakið í fyrri hálfleik en ógnaði Skagamönnum ekki mikið.
„Uppsett atriði og annað sem við áttum að nýta betur í fyrri hálfleik. Þegar menn hugsa ÍBV þá eru við frábærir í uppsettum atriðum, frábærir í roki og allt þetta. Við erum betur spilandi lið en margir halda. Mér fannst við sýna það í fyrri hálfleik en það vantaði fleiri skot á markið."
„Mér fannst við töluvert betra liðið í fyrri hálfleik en mér fannst þeir gera áhlaup í seinni hálfleik. ÍA er stórveldi í íslenskum fótbolta þannig þú getur ekki ætlast til að þeir leggist niður í Eyjum. Þeir eru með frábæra leikmenn í liðinu sínu. Ef þú lest nöfnin á blaði þá finnst mér þeir vera með vel mannað lið. Þú getur ekkert slakað á hvorki á móti ÍA né á móti öðru liði í þessari deild."
ÍBV er komið í 6. sæti deildarinnar en liðið mætir Breiðabliki á Kópavogsvelli í lokaumferðinni fyrir tvískiptinguna þann 15. september. ÍBV hefur náð í mjög góð úrslit gegn efstu liðunum í deildinni í sumar.
„Ég sá einhverja tölfræði um daginn að við færum með eiginlega jafn mikið af stigum gegn efra skilti og neðra skilti. Unnum Víkinga í bikarnum líka. Við erum þannig lið að okkur finnst gaman að spila og mæla okkur við bestu liðin. Okkur hlakkar til að spila við Breiðablik, við berum mikla virðingu fyrir þeim."
Athugasemdir