Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fös 17. desember 2004 09:23
Adriano (Inter 8)
Við hér á Fótbolti.net stóðum fyrir kosningu á besta fótboltamanni heims í nóvembermánuði árið 2004. Við birtum svo ítarlegan pistil um hvern og einn leikmann eða einn á dag í desembermánuði í jóladagatalinu okkar.


8. Adriano

Miðað við barnæsku Adriano er það ekki skrýtið að hann skuli lifa af í hinni erfiðu Serie-A deild á Ítalíu. Leite Ribeiro Adriano fæddist þann 17. febrúar árið 1982 í Rio De Janeiro í Brasilíu. Hann ólst upp í Vila Cruzeiro, einu fátækasta hverfi Rio þar sem faðir hans starfaði sem aðstoðarmaður á skrifstofu en móðir hans var aðeins 17 ára þegar hann fæddist.

Þau höfðu ekki miklar tekjur og lífið var erfitt” sagði Adriano eitt sinn um barnæskuna. Þegar hann var sjö ára gamall var Adriano að leika sér í fótbolta með nokkrum öðrum krökkum þegar hann sá lítinn strák vera skotinn til bana. Hann var fórnarlamb klíkustríðs vegna eiturlyfja. Margir félagar hans enduðu í klíkunum í Rio þar sem þeir urðu eiturlyfjafíklar eða voru drepnir.

Leið Adriano úr fátækrahverfinu var að fara í unglingadeild Flamengo. Hann átti ekki pening til að taka strætó frá Rio og á æfingasvæði félagsins og því klæddist hann skólatreyjunni sinni á leiðinni á æfingar til að fá frítt í strætó.

Það var ómaksins virði. Hjá Flamengo vann Adriano sig upp í aðalliðið. Þrátt fyrir að stuðningsmenn liðsins voru ekki ýkja hrifnir af klaufaskapnum í honum sá Emerson Leao landsliðsþjálfari Brasilíu á þeim tíma, eitthvað við hann. Hann spilaði sin fyrsta landsleik þegar hann var 18 ára gamall árið 2000.

Hann kom til Inter undir lok leiktíðarinnar 2001 en fáir tóku eftir honum. Hann var ungur og lítið þekktur enda aðrir frægari leikmenn sem komu til liðs við félagið á sama tíma. En hann byrjaði stórkostlega þegar hann skoraði í æfingaleik gegn Real Madrid með frábærri aukaspyrnu af löngu færi.
Það gerði það að verkum að Adriano fékk að byrja leiktíðina hjá Inter í stað þess að vera lánaður til smærra liðs í deildinni eins og tíðkast oft í Serie-A. En eftir 8 leiki og 1 mark var hann lánaður til Fiorentina. Því næst var hann seldur til Parma þar sem hann sló í gegn.

Inter menn voru ekki lengi að sjá eftir þessu. Adriano skoraði 15 mörk við hlið Adrian Mutu hjá Parma og næsta tímabil byrjaði enn betur. Þá skoraði hann 8 mörk í 9 leikjum en meiddist svo alvarlega á hné.

Á meðan hann var að jafna sig lentu Parma í fjárhagsvandræðum. Það varð því ljóst að liðið varð að selja Adriano sem var orðinn verðmætasti leikmaður þess. Ekki vantaði liðin sem sýndu honum áhuga en Inter höfðu sett forkaupsrétt í samning hans við Parma og því keyptu þeir hann aftur.

Hann varð í sumar markahæsti maður Copa America keppninnar og er orðið erfitt að velja hann ekki byrjunarlið Brasilíu. Að finna leikmann sem gerði betur en Adriano, að skora sjö mörk eða fleiri í Copa America verðurðu að leita langt aftur. Og hvaða nafn skildirðu finna þá? Pele! Pele skoraði átta mörk í lokakeppni Copa America árið 1959. Adriano gerir betur en Bebeto árið 1989 sem skoraði sex mörk og þeir Ronaldo og Rivaldo sem settu fimm árið 1999.

Undanfarna mánuði hefur Adriano bókstaflega verið markamaskína og Brasilísku framherjarnir sem vildu ekki spila á Copa America sjá líkega eftir því núna. Sérstaklega þegar tekið er með í reikninginn hina miklu tryggð sem hann heldur við félagslið sitt sem og landslið, jafnvel á gífurlega erfiðum tímum í einkalífinu.
Þann 25. júlí skoraði hann ómetanlegt mark í úrslitaleik Copa America gegn erkióvinunum í Argentínu sem Brasilía vann á endanum 6-4 eftir vítaspyrnukeppni. Aðeins sex dögum síðar lenti Adriano í Manchester eftir 16 klukkustunda langt flug. Daginn eftir skoraði hann eina markið í 1-0 sigurleik gegn Bolton í æfingaleik. Enn sem komið er, ekkert óeðlilegt líf hjá atvinnuknattspyrnumanni.

En þann 3. ágúst eftir að hafa spilað í þriggja liða móti með Juventus og Palermo í Mílanó fékk Adriano þær fréttir að faðir hans hefði bráðkvatt heiminn þegar hann fékk hjartaáfall. Hann flaug aftur til Rio de Janeiro daginn eftir til að sjá um jarðaförina.
Þann 9. ágúst var Adriano svo aftur kominn til Mílanó og fór strax það kvöld með Inter til Sviss þar sem liðið lék gríðarlega mikilvægan og erfiðan leik gegn Basel í forkeppni Meistaradeildarinnar. Hann barðist í gegnum tilfinningarnar og þreytuna og skoraði frábært jöfnunarmark í fyrri leiknum sem lyktaði með 1-1 jafntefli. Hann skoraði svo tvisvar í 4-1 sigrinum í síðari leiknum sem kom Inter í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

"Ég verð að hvíla mig núna. Ég er útslitinn. Og ég verða að jafna mig á öllu sem gekk á í Rio" sagði Adriano eftir fyrri leikinn. "Markið mitt var fallegt en þó svo að ég hafi skorað fallegri mörk hafði þetta sérstaka þýðingu. Það er tileinkað föður mínum sem stóð alltaf við hlið mér. Þú verður að læra að upplifa erfiðu augnablikin í lífinu líka."
Adriano og faðir hans höfðu verið mjög nánir, nánari en flestir feðgar eru. "Ég var 10 ára og labbaði við hliðina á honum í Vila Cruzeiro (gata í Rio) þegar byssubardagi braust út og faðir minn varð fyrir skoti. Hann hné niður fyrir framan mig og ég gat ekki hjálpað honum því vinir mínir vildi ekki leyfa mér það.

Þetta hafði gríðarleg áhrif á mig. Líf mitt breyttist þennan dag. Ég varð fullorðinn á staðnum. Í 12 ár var pabbi minn með byssukúlu í hauskúpunni. Um leið og ég byrjaði að vinna mér inn pening reyndi ég að hjálpa fjölskyldunni minni af því að hér (í fátækrahverfinu í Rio) snýst lífið um þjófnað, byssur og eiturlyf. Til að forðast allt það þarftu að hafa sterka fjölskyldu á bak við þig."
Adriano fagnar öllum mörkum sínum með því að benda til himins, fyrir föður sinn.

Og lífsreglur Adriano eru þær sömu í atvinnumennskunni. Þegar nokkur lið úr ensku úrvalsdeildinni vildu fá hann til sín ákvað hann að vera áfram trúr Inter. "Massimo Moratti (eigandi Inter og fyrrum forseti félagsins) bjargaði mér með því að draga mig úr fátækrahverfinu. Ég mun aldrei svíkja hann" segir Adriano.
Og Adriano er svo sannarlega orðinn einn allra heitasti framherjinn í dag. Þegar þetta er skrifað hefur hann skorað 21 mark í 21 leik fyrir Inter! Ekki má gleyma því að Adriano er ekki nema 22 ára gamall og á sín bestu ár eftir, hversu góður verður hann eiginlega?

Sjá einnig:
Nr. 9: Ruud van Nistlerooy (Manchester United)
Nr. 10: Gianluigi Buffon (Juventus)
Nr. 11: Eiður Smári Guðjohnsen (Chelsea)
Nr. 12: Ronaldo (Real Madrid)
Nr. 13: Arjen Robben (Chelsea)
Nr. 14: Sol Campbell (Arsenal)
Nr. 15: Patrick Vieira (Arsenal)
Nr. 16: Alessandro Nesta (AC Milan)
Nr. 17: Wayne Rooney (Manchester United)
Nr. 18: Paolo Maldini (AC Milan)
Nr. 19: David Beckham (Real Madrid)
Nr. 20: John Terry (Chelsea)
Nr. 21: Cristiano Ronaldo (Manchester United)
Nr. 22: Edgar Davids (Inter Milan)
Nr. 23: Kaká (AC Milan)
Nr. 24: Michael Owen (Real Madrid)

Athugasemdir
banner
banner
banner