Í apríl verða sýndir þættir á Stöð 2 Sport sem heita „Þriðja liðið" en í þáttunum er sýnt bak við tjöldin í íslenska dómaraheiminum. Egill Arnar Sigurþórsson, framleiðandi þáttanna, var í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolti.net í gær.
„Við höfum í tvö ár fylgt eftir dómurum. Við erum að horfa á fótboltann út frá þeirra sjónarhorni. Þetta eru þættir í heimildarmyndastíl. Við fylgjum dómurunum eftir, förum heim til þeirra, á æfingar og öllu sem þessu fylgir," segir Egill.
„Við höfum aðallega fylgt eftir tveimur dómurum. Leiðarstefið í þáttunum er Þóroddur Hjaltalín og hann dregur okkur gegnum seríuna. Þorvaldur Árnason kemur einnig sterkur inn en síðan spilast allar kempurnar inn í þetta."
„Við byrjum 2012 þegar margir voru á því að Þóroddur væri að skrapa botninn í sinni frammistöðu án þess að ég ætli að leggja mat á það. Síðan fylgjum við honum eftir. Annað sem er nýtt er að við tökum upp samræður dómaranna í gegnum samskiptakerfið þeirra."
„Þetta er algjörlega okkar verkefni. Það er ekkert þannig að KSÍ bað okkur um að setja glansmynd á dómarana. Við munum skoða mistök og ræða við þá um mistökin og fara yfir þetta. Svo skoðum við þetta í miklu stærra samhengi en við hittum Howard Webb og fleiri og ræddum dómgæslu," segir Egill en viðtalið má heyra í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir