Arsenal býður fimm ára samning - Liverpool reyndi skiptidíl - Bernardo Silva til Benfica - Olise á blaði Liverpool
   fös 12. september 2025 11:53
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ekkert með Víkingi í tæpa tvo mánuði en lék tvo landsleiki - „Gunnar er einstakur"
Gunnar Vatnhamar er mættur aftur af stað eftir meiðsli.
Gunnar Vatnhamar er mættur aftur af stað eftir meiðsli.
Mynd: Víkingur
Matthías kom inn á gegn Breiðabliki í síðustu umferð.
Matthías kom inn á gegn Breiðabliki í síðustu umferð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar Vatnhamar, leikmaður Víkings, sneri aftur á völlinn í landsleikjahléinu þegar hann lék báða leiki Færeyja í undankeppni HM. Hann hafði ekkert leikið með Víkingi frá því um miðjan júlí þegar kom að landsleikjunum. Þessi þrítugi færeyski varnarmaður lék allar mínúturnar með Færeyjum gegn Króatíu og Gíbraltar.

Fótbolti.net ræddi við þjálfara Víkings, Sölva Geir Ottesen, og var hann spurður út í leikmannahópinn. Framundan er leikur Víkings gegn KR í Vesturbænum á sunnudag.

Mikilvægt að fá Matta aftur á völlinn
„Staðan á hópnum er mjög fín, menn fengu gott frí, komu kraftmiklir til baka og voru byrjaðir svolítið að sakna fótboltans. Það er alltaf gott að sakna þess að mæta á æfingar og mæta aftur til leiks. Mér finnst menn hafa komið flottir til baka, skynja mikið hungur í leikmönnum. Standið er flott, flestir orðnir heilir. Gunnar Vatnhamar fékk mikilvægar mínútur með færeyska landsliðin og kom vel út úr því sem er mjög jákvætt fyrir okkur, jákvætt að hann sé kominn með leiki í lappirnar."

„Daði (Berg Jónsson), Aron (Elís Þrándarson) og Sveinn Margeir (Hauksson) eru fjarri góðu gamni. Matthías (Vilhjálmsson) er orðinn klár, búinn að æfa á fullu, er ekki í mikilli leikæfingu en er búinn að vera flottur á æfingum og finnur ekkert fyrir sínum meiðslum. Það er mikilvægt að fá Matta aftur á völlinn, hrikalega öflugur leikmaður innan klefans, mikill leiðtogi sem hvetur menn áfram,"
segir Sölvi.

Tók verkefnið á kassann
Gunnar Vatnhamar hafði ekki spilað síðan í júlí þegar hann svo spilaði tvo 90 mínútna leiki með færeyska landsliðinu. Var þetta það sem þið vilduð, að fyrstu mínúturnar hans kæmu þarna?

„Ég var að spá í því að hafa hann á bekknum á móti Breiðabliki, en það var liðinn langur tími frá því að hann spilaði leik þar á undan og við erum með stóran og breiðan hóp. Við vorum með marga varnarmenn á bekknum í þeim leik sem voru tilbúnir að koma inn í leikinn. Ég taldi betra að við myndum frekar hafa einn sóknarmann í viðbót á bekknum og Gunnar gæti svo fengið sínar mínútur með landsliðinu. Ég var að vonast til að hann myndi fá allavega einn 90 mínútna leik og svo kannski aðeins minna í seinni leiknum, ekki að bomba honum strax í 2x90 mínútur, en Gunnar er einstakur; ekki eins og margir aðrir. Hann auðvitað tók þetta verkefni á kassann og kláraði þessa leiki með sæmd. Hann finnur ekkert fyrir gömlu meiðslunum sem er mjög jákvætt, einhver stífleiki en það er eðlilegt," segir Sölvi.
Athugasemdir
banner
banner