Arsenal býður fimm ára samning - Liverpool reyndi skiptidíl - Bernardo Silva til Benfica - Olise á blaði Liverpool
   fös 12. september 2025 17:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Fínt fyrir Daða að hreyfa sig á meðan hann bíður eftir aðgerð
Daði Berg.
Daði Berg.
Mynd: Víkingur
Daði Berg Jónsson hefur síðustu tvær vikur spilað með 2. flokki Víkings en hann hafði fyrir það ekki spilað í tæpa tvo mánuði vegna meiðsla. Fyrri hluta tímabils var Daði frábær með liði Vestra, var kallaður til baka til Víkings úr láni en hefur ekki getað spilað með meistaraflokki Víkings á þessu tímabili.

Daði glímir við kviðslit eða 'sports hernia' og er beðið eftir því að hann komist í aðgerð. Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings, sagði í viðtali við Fótbolta.net að Daði væri frá vegna meiðsla, en samt hefur hann spilað samtals um 160 mínútur með 2. flokki í leikjunum tveimur.

„Heilsan á honum er ekki nógu góð, hann er að glíma við 'sports hernia' eða kviðslit. Hann versnar ekki við það að hann að spila með 2. flokki, hann er bara að bíða eftir að komast í aðgerð, við erum að vinna í því að fá tíma í aðgerð fyrir hann sem fyrst."

„Læknar þurfa að meta hann, fá alit annarra og fá niðurstöðu hver eigi að skera hann upp. Ég býst fastlega við því að hann fari í aðgerð fljótlega. Það er fínt fyrir hann að hreyfa sig og reyna viðhalda forminu áður en hann fer í aðgerðina. Þá verður endurheimtin fljótari eftir aðgerðina. Staðan er ekki nógu góð en aðgerð ætti að leysa þetta vandamál,"
segir Sölvi.
Athugasemdir