Landsliðsmaðurinn Hörður Björgvin Magnússon er mættur til Kýpur þar sem hann á í viðræðum við Anorthosis Famagusta, en það er algerlega óvíst hvort hann gangi í raðir félagsins. Þetta herma heimildir Fótbolta.net.
Miðvörðurinn fékk tilboð frá Famagusta í gær og flaug til Larnaca í morgun til að ganga frá samkomulagi.
Á sama tíma og hann lenti fékk félagið slæmar fréttir, en íþróttadómstóll CAS hefur dæmt félagið til að greiða tveimur leikmönnum 1,1 milljón evra vegna vangoldinna launa.
Þetta kemur sér mjög illa fyrir félagið sem hefur 45 daga til að ganga frá greiðslunni annars á það í hættu að vera dæmt í félagaskiptabann.
Andrea Santis, fyrrum forseti félagsins, sá um að semja við leikmennina, en hann starfar ekki lengur þar og vinnur nú félagið í því að þrífa upp skítinn eftir Santis.
Eins og staðan er núna bíður Hörður eftir frekari svörum frá félaginu. Það er því algerlega óráðið hvort hann gangi í raðir Famagusta,
Félög á Mið-Austurlöndunum, Grikklandi og Tyrklandi hafa einnig sýnt honum áhuga síðustu vikur, en glugginn er enn opinn á þessum svæðum og hefur Hörður því enn tíma til að finna sér nýjan klúbb áður en öllu verður skellt í lás.
Hörður, sem er 32 ára gamall, hefur verið án félags síðan í júní er samningur hans við gríska stórveldið Panathinaikos rann út.
Athugasemdir