Rúben Amorim, stjóri Manchester United, hefur verið ein taugahrúga í upphafi tímabilsins.
Man Utd hefur unnið einn leik til þessa á tímabili en sá sigur kom gegn Burnley fyrir landsleikjahlé.
Man Utd hefur unnið einn leik til þessa á tímabili en sá sigur kom gegn Burnley fyrir landsleikjahlé.
„Ég skal viðurkenna, þetta var minn mesti lágpunktur sem stuðningsmaður Manchester United til þessa," sagði Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson í Enski boltinn hlaðvarpinu þegar rætt var um tap United gegn Grimsby í enska deildabikarnum.
„Ég skemmti mér konunglega," sagði Magnús Haukur Harðarson sem er stuðningsmaður Liverpool.
„Rúben Amorim og öll hans orka eftir þennan Grimsby leik. Ég hélt á fimmtudagsmorgun að hann myndi labba inn á skrifstofuna á Old Trafford og segja af sér. En hann mætti og sótti sigur gegn Burnley. Hans orka í þeim leik, ég hef aldrei séð stressaðari mann," sagði Guðmundur.
„Hann er búinn að tala mjög furðulega í viðtölum, segja mjög skrítna hluti. Mér fannst þetta algjör töffari þegar hann kom fyrst og ég var opinn fyrir því að fá hann til Liverpool þegar Klopp fer. Ungur, huggulegur Portúgali sem virtist vita hvað hann var að gera. En núna, hann höndlar ekki að horfa á vítaspyrnukeppni og maður sér að hann er drullustressaður á hliðarlínunni. Hann fer furðulega út úr viðtölum," sagði Baldvin Már Borgarsson.
„Það er eins og hann sé við það að fá taugaáfall," sagði Guðmundur.
Amorim er ekki að gefa mjög jákvæða og uppbyggjandi orku frá sér þessa dagana.
„Hann er aumkunarverður á bekknum," sagði Magnús Haukur.
„Hann þarf bara nokkra tíma hjá sálfræðingi, fá hausinn í lag. Hann er ekki á góðum stað," sagði Guðmundur. „Öll orka frá honum er neikvæð," sagði Baldvin.
„Ég vona innilega að honum muni ganga vel," sagði Guðmundur.
Hægt er að hlusta á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir