
Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, var svekktur eftir 1-0 tap gegn Þrótti í Bestu deild kvenna í kvöld.
„Það er vont og sárt að tapa. Ég finn til með stelpunum sem lögðu allt í leikinn og áttu meira skilið en ekkert í dag," sagði Jóhann Kristinn.
„Það er vont og sárt að tapa. Ég finn til með stelpunum sem lögðu allt í leikinn og áttu meira skilið en ekkert í dag," sagði Jóhann Kristinn.
Lestu um leikinn: Þór/KA 0 - 1 Þróttur R.
Þór/KA fékk á sig mark strax á 4. mínútu eftir hornspyrnu.
„Við ráðumst ekki á boltann og þær gera þetta vel, klessa niður völdunina á nærsvæðinu. Þetta er helvítis kæruleysi og hik sem er gjörsamlega óþolandi. Við eigum að verja markið okkar betur, við höfum gert það frábærlega í sumar í föstum leikatriðum. Þetta var úr karakter og ég og við erum svekkt með það, ég veit að stelpurnar eru svekktar manna mest," sagði Jóhann Kristinn.
„Við fengum betri færi en þetta, ég get sagt þér það. Ég held að ég hafi aldrei séð Kimmy (Kimberley Dóru) skalla framhjá eða yfir úr jafngóðu skallafæri eins og eftir frábært horn Karenar í seinni hálfleik,"
Af hverju var þetta svona miklu betra í seinni hálfleik?
„Leikurinn var öðruvísi. Við stigum upp, það sáu allir hvað við vorum að gera í fyrri hálfleik og við ákváðum þótt markið hafi komið á 4. mínútu að bregða ekki út af planinu, við ætluðum að verja markið okkar alllavega í 45 mínútur. Fyrri hálfleikurinn spilaðist vel varnarlega en fengum þetta mark á okkur því miður," sagði Jóhann Kristinn.
„Við stigum upp í seinni hálfleik. Það er meira okkar leikur heldur en það sem við gerðum í fyrri. Það er oft þannig að lið verða kærulaus þegar þú ert einum fleiri og heldur að þetta verði auðvelt. Stundum einis og menn búist við að það birtist aukamaður í appelsínugulu vesti en það gerist ekki. Ég fer með tár á hvarmi á koddann því ég finn svo til með þeim að hafa lagt allt í þetta og ekki fengið neitt."
Það var mikill pirringur hjá heimakonum í blálok fyrri hálfleiks þegar þær vildu fá vítaspyrnu þegar Ellie Rose Moreno féll í teignum eftir baráttu við Mollee Swift, markvörð Þróttar.
„Við teljum að markmaðurinn hafi krækt í fótinn á Ellie. Kannski sáum við þetta ekki nógu vel og hún hafi runnið. Markmaðurinn er óheppilega staðsettur og var hálfsek á svipinn. Ég ætla ekki að gera þeim upp eitthvað," sagði Jóhann Kristinn.
Sonja Björg Sigurðardóttir fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir kjaftbrúk í kjölfarið. Jóhann Kristinn fékk einnig áminningu.
„Það er erfið staða sem þeir eru í sem eru að dæma á Akureyri að passa sig að vera ekki að dæma með heimaliðinu, þeir eru greinilega mjög hræddir um það umtal. Það var einhver leiksýning hjá þeim í hálfleik sem endaði með einhverjum spjöldum og stolti. Það var óþarfa leiksýning fyrir fjöldann. Það voru læti undir lok fyrri hálfleiks í Boganum og ég held að okkar menn á flautunni og flöggunum hafi veðrast upp," sagði Jóhann Kristinn.
Þú heldur að Svenni sé að passa sig að fá ekki þennan stimpil að það sé heimadómgæsla á Akureyri?
„Ég held ekkert um það en þetta er staðan sem hann er í. Ég ætla ekki að gera honum upp eitt eða neitt, hann getur ekkert svarað fyrir sig. Hann gerði það í hálfleiknum, fannst ég vera full hvass, mér fannst það ekki. Þeir henda á mig gulu spjaldi og seinna gula spjaldinu á Sonju fyrir að segja að okkur fyndist þeir vera lélegir í þessu augnabliki," sagði Jóhann Kristinn.
„Inn í þetta stóra afdrifaríka augnablik blandaðist pínulítið agaleysi hjá okkur sem fauk aðeins í hita leiksins í Sonju sem var að berjast fyrir liðið sitt. Þegar uppi er staðið skil ég hana. Þarna hefði yfirvegaður dómari lesið í aðstæður, ég hefði gert þetta öðruvísi alveg eins og hann hefði gert fullt af hlutum sem ég er að gera allt öðruvísi."
„Þarna er bara hiti. Hann vildi meina að hún hafi verið að móðga sig með því að segja að hann hafi verið lélegur. Ef ég gæti gefið spjöld væri ég alltaf að gefa spjöld ef ég þyrfti að gera það í hvert skipti sem einhver talar um hvað ég er lélegur þjálfari. Þetta var lélegt í mómentinu fannst leikmanninum og okkur, það hefði verið hægt að kæla það með því að segja mönnum að ganga til búningsherbergja. Þeir ákváðu að kveikja í ástandinu með því að byrja með sýningu. Ég held að það hjálpi ekki."
Athugasemdir