lau 03. desember 2022 15:00
Fótbolti.net
Björn Hlynur spáir í Argentína - Ástralía
Björn Hlynur Haraldsson.
Björn Hlynur Haraldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jackson Irvine.
Jackson Irvine.
Mynd: Getty Images
Argentína og Ástralía mætast klukkan 19 í 16-liða úrslitum HM. Spilað verður á Ahmed bin Ali leikvangnum.

Einn ástsælasti leikari íslensku þjóðarinnar, Björn Hlynur Haraldsson, spáir í leikinn.

Björn Hlynur Haraldsson:

Argentína 2 - 1 Ástralía
Hinir bráðskemmtilegu Socceroos munu komast yfir með marki í byrjun leiks, meðan Argentínumenn eru enn að rölta í sig smá hita. Enginn annar en Jackson Irvine mun skora markið en fyrir þá sem ekki muna hver hann er þá er það sá með yfirvaraskeggið og síða hárið. Einn glæsilegasti leikmaður keppninnar. Sá leikur með hinu stórskemmtilega félagi St.Pauli í Hamborg, sem berst í neðri hluta næsteftstu-deildar Þýskalands. En þess ber að geta að nokkrir stuðningsmenn liðsins gera sér ferðir til Íslands til þess eins að koma við á sínum uppáhalds-bar sem af einhverjum sökum er hinn heimsfrægi Ölver í Glæsibæ.

Ástralar eyða svo tankinum í að elta leiðinlegan göngubolta Argentínumanna fram að hléi. Síðan fljótlega eftir hálfleik munu Argentínumenn skora tvö mörk og halda því forskoti til loka leiks.

Fótbolti.net spáir - Elvar Geir Magnússon:

Argentína 3 - 0 Ástralía
Þó Harry Souttar sé eins manns varnarher þá ræður hann ekki einn við Argentínu í þessum leik. Það kom loksins alvöru flæði í argentínska liðið í sigrinum gegn Póllandi, þá náðu Messi og vinir hans að sýna sitt rétta andlit. Þeir munu ekki eiga í nokkrum vandræðum með að koma sér í 8-liða úrslitin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner