Haaland verður með riftunarákvæði - Real Madrid ætlar að fá Saliba - Antony til Newcastle?
   mið 04. september 2024 12:06
Fótbolti.net
Ofbeldinu í Krikanum hefur verið vísað til aganefndar
Mönnum var heitt í hamsi í Kaplakrikanum.
Mönnum var heitt í hamsi í Kaplakrikanum.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Frá viðureign Stjörnunnar og FH sem fram fór á sunnudaginn.
Frá viðureign Stjörnunnar og FH sem fram fór á sunnudaginn.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Guðmundur Kristjánsson.
Guðmundur Kristjánsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Málskotsnefnd KSÍ hefur vísað látunum sem áttu sér stað í Kaplakrikanum í leik FH og Stjörnunnar til aganefndar sambandsins. Málskotsnefndin getur vísað alvarlegum agabrotum til aganefndarinnar ef þau fóru framhjá dómurum leiksins.

Talsverð umræða hefur verið um samskipti Böðvars Böðvarssonar leikmanns FH og Guðmundar Kristjánssonar leikmanns Stjörnunnar sem voru stálheppnir að fá ekki að líta rauða spjaldið í viðureign liðanna um síðustu helgi. Stjarnan vann umræddan leik 3-0.

Í Stúkunni á Stöð 2 Sport var sýnt frá því þegar Böddi notaði olnbogann í baráttunni við Guðmund sem svaraði með kjaftshöggi.

Dómarar leiksins sáu ekki atvikin en Eysteinn Pétur Lárusson, nýr framkvæmdastjóri KSÍ, staðfestir í samtali við Fótbolta.net að málskotsnefndin hafi vísað þessum atvikum til aganefndarinnar.

Hann bara kýlir hann
Ef báðir hljóta leikbann má búast við því að Guðmundur fái meira en einn leik í bann.

„Atvikið sem allir eru að tala um, þetta er með því fáránlegra sem ég hef séð. Hvað var að gerast þarna? Klafs inni á teignum, Böddi setur olnbogann í Gumma Kristjáns sem bara kýlir hann. Þetta er eiginlega bara líkamsárás og ég hugsaði hvort þetta væru ekki 3-4 leikir í bann á Gumma," segir Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson fréttamaður Fótbolta.net þegar rætt er um málið í Innkastinu.

„Ef þetta fer ekki fyrir aganefndina þá getum við sleppt því að hafa þessa nefnd. Kannski er ég að gera of lítið úr þessu olnbogaskoti en þetta er eitthvað sem mér finnst alltaf gerast í teignum. Gummi kýlir hann á móti og hvernig Pétur (Guðmundsson dómari) sér þetta ekki það skil ég ekki," segir Valur Gunnarsson í þættinum.

„Ef ég væri í aganefndinni myndi ég leggja til einn leik á Bödda og tvo á Gumma," segir Elvar Geir Magnússon í þættinum.

Hver er þessi málskotsnefnd?
Áður var það framkvæmdastjóri KSÍ sem vísaði svona málum til aganefndarinnar en nú er það sérstök málskotsnefnd sem sem gerir það.

„Nú hafa mál sem þessi verið færð í hendur fagnefndar sem ber heitið Málskotsnefnd og sitja þar þrír einstaklingar, þar af einn reyndur fyrrverandi knattspyrnudómari og einn löglærður. Er nefndinni ætlað framvegis að taka ákvörðun um hvort meint agabrot, sem farið hefur framhjá dómarateymi leiks, verði vísað til aga- og úrskurðarnefndar," segir á heimasíðu KSÍ en breytingin var gerð á ársþinginu fyrr á þessu ári.

Málskotsnefndin vinnur við öflun staðfestinga frá dómarateymi, öflun álita fagfólks á meintu broti og loks gagnavinna vegna málskots til aga- og úrskurðarnefndar. Birgir Jónasson, Gísli Hlynur Jóhannsson og Íris Björk Eysteinsdóttir skipa nefndina.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner