Newcastle United hefur haft samband við bresku lögregluna eftir að miðjumaðurinn Joe Willock varð fyrir kynþáttaníði og alvarlegum hótunum á Instagram eftir leik liðsins gegn Crystal Palace.
Newcastle fór með 2-0 sigur af hólmi gegn Crystal Palace í gærdag. En Willock var skotmark nafnlauss Instagram-aðgangs eftir að hafa klúðrað færi seint í leiknum.
Í kjölfarið birti hann skjáskot af röð ógeðfelldra einkaskilaboða sem hann fékk frá notanda á samfélagsmiðli eftir leikinn. Í svari við skilaboðunum skrifaði Willock: „Ég bið þess að þú og fjölskylda þín finnið Guð og megi hann veita ykkur miskunn.“
Þetta er í annað sinn á innan við ári sem Willock vekur athygli á rasískum skilaboðum sem hann hefur fengið á Instagram.
Newcastle hafði áður samband við lögregluna eftir að Willock varð fyrir áreiti á samfélagsmiðlinum í kjölfar 2-1 taps gegn Fulham í febrúar síðastliðnum.
Athugasemdir




