Valið hjá Man Utd er milli Solskjær og Carrick - Newcastle fær samkeppni frá Spurs um Strand Larsen - Lewandowski vill ekki fara
   mán 05. janúar 2026 18:49
Ívan Guðjón Baldursson
Afríkukeppnin: Egyptaland þurfti framlengingu
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Egyptaland 3 - 1 Benín
1-0 Marwan Attia ('69 )
1-1 Jodel Dossou ('83 )
2-1 Yasser Ibrahim ('97 )
3-1 Mohamed Salah ('124)

Úrvalsdeildarstjörnurnar Mohamed Salah og Omar Marmoush voru í byrjunarliði Egyptalands sem mætti Benín í 16-liða úrslitum Afríkukeppninnar í dag.

Staðan var markalaus eftir jafnan og afar tíðindalítinn fyrri hálfleik en það lifnaði í leiknum eftir leikhléð.

Marwan Attia tók forystuna fyrir Egyptaland á 69. mínútu með glæsilegu skoti við vítateigsbogann. Boltinn rúllaði úr teignum og til Attia sem smellhitti hann og setti hann örugglega undir samskeytin, fullkomin afgreiðsla.

Benín sýndi mikið hugrekki í leiknum og var liðið stórhættulegt í síðari hálfleiknum. Benín komst nálægt því að jafna áður en Jodel Dossou setti boltann í netið af stuttu færi eftir klaufagang í varnarleik Egypta á 83. mínútu.

Egyptum mistókst að spila úr pressu svo Benín vann boltann hátt uppi á vellinum. Boltinn barst út á hægri kantinn og gaf leikmaður Benín fyrirgjöf sem gjörbreytti um stefnu af varnarmanni Egypta sem hoppaði fyrir.

Boltinn snérist í átt að markinu þar sem Mohamed El Shenawy var óviðbúinn en tókst þó að bjarga boltanum frá því að fara yfir marklínuna. Jodel Dossou var fljótastur að bregðast við og náði að pota boltanum yfir línuna af stuttu færi til að jafna.

Hvorugu liði tókst að gera sigurmark á lokamínútunum svo gripið var til framlengingar. Þar tóku Egyptar forystuna á ný með frábærum skalla frá Yasser Ibrahim eftir fyrirgjöf frá markaskoraranum Attia.

Þreyttir leikmenn Benín leituðu að jöfnunarmarki en áttu erfitt með að skapa sér færi. Salah nýtti sér það og innsiglaði sigur Egyptalands með marki eftir skyndisókn á lokasekúndunum. Lokatölur 3-1.

Egyptaland mætir annað hvort Fílabeinsströndinni eða Búrkína Fasó í 8-liða úrslitum.
Athugasemdir
banner
banner