Fjarðabyggð tapaði 4-1 gegn ÍR í fyrstu deild karla í dag og er því ennþá með þrjú stig eftir fyrstu fimm umferðirnar. Heimir Þorsteinsson, annar af þjálfurum liðsins, var svekktur eftir tapið í dag.
„Ég ætla ekki að vera með neinar afsakanir. Við erum búnir að verða fyrir gríðarlegum missi í meiðslum og eru með fullt af mönnum frá út árið og í meiðslum. Það eru ungir strákar sem fá mjög erfitt verkefni greinilega. Þeir eru að reyna og standa sig mjög vel en þeir geta ekki tekið við keflinu strax," sagði Heimir við Fótbolta.net etir leik.
Eftir leikinn í dag fengu Grétar Örn Ómarsson og Jóhann Benediktsson leikmenn Fjarðabyggðar að líta rauða spjaldið sem og Páll Guðlaugsson sem þjálfar liðið með Heimi. Leikmenn Fjarðabyggðar voru ósáttur við Pétur Guðmundsson dómara og aðstoðarmenn hans og Heimir vandaði þeim ekki kveðjurnar eftir leik.
„Það er algjör skandall þessi dómgæsla sem var í þessum leik. Í fyrri hálfleik er eitt mest áberandi víti sem ég hef séð á mínum langa ferli, þetta var ekkert gróft en púra, púra víti. Hann sá þetta en þorði ekki að dæma á þetta. Aðstoðardómarinn var í beinni línu við þetta og þorði ekki að flagga á þetta. Þetta eru hugleysingar dauðans."
„Síðan fá þeir útrás fyrir sitt gerviegó með því að spjalda menn fyrir að segja ekki neitt og kalla leikmenn mína rugludalla. 'Ertu í ruglinu?' segir hann við leikmanninn minn. Ég díla ekki við svona gæa. Þetta fer beint í KSÍ, það verður hringt í KSÍ og það kemur ekki til greina að þetta verði liðið. Svona gæi á að vera með flautuna einhversstaðar heldur en í munninum, í hinum endanum."
























