Hollenski vængbakvörðurinn Denzel Dumfries var í lykilhlutverki er Inter lagði Barcelona að velli í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.
Einvígi þessara liða var hreint út sagt ótrúlegt, þar sem báðum undanúrslitaleikjunum lauk með 3-3 jafntefli svo grípa þurfti til framlengingar í Mílanó í kvöld.
Dumfries skoraði tvö og lagði eitt upp í fyrri leiknum og var hann aftur gríðarlega mikilvægur í kvöld, þar sem hann lagði upp tvö af fjórum mörkum Inter.
„Annar klikkaður leikur, þetta var ótrúlegt. Ég er svo stoltur af því hvernig við börðumst fyrir þessu, ég er ánægður að fara aftur í úrslitaleikinn," sagði kátur Dumfries að leikslokum, en hann var nýlega búinn að jafna sig eftir meiðsli þegar Inter heimsótti Barcelona fyrir viku síðan.
„Það er gott að geta hjálpað liðinu strax eftir að hafa komið aftur úr meiðslum. Það var ekki auðvelt að spila tvo svona leiki strax eftir meiðslin en ég er ánægður. Við verðum að berjast og gefa allt fyrir treyjuna. Ég er mjög stoltur."
Þetta er annar úrslitaleikur Meistaradeildarinnar sem Inter kemst í á þremur árum, eftir að hafa tapað naumlega gegn Manchester City fyrir tveimur árum síðan. Dumfries segir Simone Inzaghi þjálfara eiga stórt hrós skilið fyrir það starf sem hann er að vinna hjá félaginu.
„Hann er stórkostlegur þjálfari og hefur gert magnaða hluti fyrir þetta félag síðan ég kom hingað. Hann er fyrirmynd og allir innan félagsins ættu að vera stoltir af því að hafa hann við stjórnvölinn."
Inter mætir annað hvort Arsenal eða PSG í úrslitaleiknum í München, þar sem franska stórveldið PSG lítur líklegra út eftir fyrri undanúrslitaleik liðanna.
„Við munum fara í úrslitaleikinn til að sigra. Fyrir tveimur árum töpuðum við úrslitaleiknum og í ár förum við aftur í hann með sama markmið. Á morgun kemur í ljós hverjum við mætum."
Athugasemdir