Svissneski reynsluboltinn Yann Sommer var valinn sem besti leikmaður vallarins eftir 4-3 sigur Inter gegn Barcelona í seinni undanúrslitaleik liðanna í Meistaradeild Evrópu.
Gífurlega sterkt varnarlið Inter réði ekki við sóknarþunga Börsunga, rétt eins og afar brothætt vörn Barcelona höndlaði ekki sóknir Inter. Úr varð mikil markaveisla þar sem lokatölur urðu 7-6 í heildina.
Niðurstaðan hefði hæglega getað orðið önnur ef ekki fyrir Sommer sem varði nokkra afar erfiða bolta í kvöld, meðal annars góða marktilraun frá Lamine Yamal undir lok framlengingarinnar.
„Þetta var klikkaður leikur og ég er stoltur af strákunum fyrir að hafa sigrað. Við vorum eiginlega búnir að tapa en náðum að komast aftur inn í leikinn - þetta er búið að vera ótrúlegt kvöld. Þetta þýðir mjög mikið fyrir okkur, það er ekki oft sem maður kemst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Við lögðum allt í sölurnar og stuðningsmenn gerðu það líka," sagði Sommer kátur.
Inter komst í 2-0 forystu í fyrri hálfleik en Börsungar voru mun sterkari aðilinn í síðari hálfleik. Gestirnir náðu að jafna og tóku svo forystuna á 88. mínútu áður en Lamine Yamal skaut í stöngina í stað þess að innsigla sigurinn.
Heimamenn í liði Inter gáfust ekki upp og var 37 ára gamli miðvörðurinn Francesco Acerbi mættur í fremstu víglínu í uppbótartímanum. Denzel Dumfries tókst að komast upp hægri kantinn af miklu harðfylgi og gefa lága fyrirgjöf sem Acerbi kláraði virkilega vel til að knýja leikinn í framlengingu á 93. mínútu.
Varnarmaðurinn þaulreyndi Matteo Darmian, 35 ára, kom inn af bekknum í síðari hálfleik og tjáði sig um jöfnunarmark Acerbi.
„Við gefumst aldrei upp, þetta er Inter. Við spilum með hjartanu. Ég veit ekki hvað hann (Acerbi) var að gera þarna, en hann var réttur maður á réttum stað."
Athugasemdir