Man Utd setur verðmiða á Garnacho - Everton og Wolves hafa áhuga á Pepe - Sané skiptir um umboðsmann
   þri 06. maí 2025 21:39
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin: Inter hafði betur eftir ótrúleg undanúrslit
Heimamenn töldu sig í góðri stöðu með tveggja marka forystu fyrir leikhlé.
Heimamenn töldu sig í góðri stöðu með tveggja marka forystu fyrir leikhlé.
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Börsungar héldu að þeir hefðu skorað sigurmarkið á 88. mínútu.
Börsungar héldu að þeir hefðu skorað sigurmarkið á 88. mínútu.
Mynd: EPA
Frattesi var einnig hetjan í sigrinum gegn FC Bayern.
Frattesi var einnig hetjan í sigrinum gegn FC Bayern.
Mynd: EPA
Inter 4 - 3 Barcelona (7-6 samanlagt)
1-0 Lautaro Martinez ('21)
2-0 Hakan Calhanoglu ('45+1, víti)
2-1 Eric Garcia ('54)
2-2 Dani Olmo ('60)
3-2 Raphinha ('88)
3-3 Francesco Acerbi ('93)
4-3 Davide Frattesi ('99)

Inter og Barcelona áttust við í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á San Siro í Mílanó í kvöld, eftir 3-3 jafntefli í fyrri leiknum í Barcelona.

Fyrri leikurinn var ótrúlega skemmtilegur og bauð seinni leikurinn sem fór fram í kvöld ekki upp á minni skemmtun. Lautaro Martínez fyrirliði Inter tók forystuna eftir sofandahátt í vörn Barcelona á 21. mínútu og fiskaði hann svo vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks, sem Hakan Calhanoglu skoraði örugglega úr. Staðan 2-0 í leikhlé.

Inter var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en Börsungar tóku öll völd á vellinum eftir leikhlé. Þeir sóttu stíft og voru búnir að jafna metin á 60. mínútu eftir tvær hættulegar fyrirgjafir frá vinstri bakverðinum Gerard Martín. Fyrst minnkaði Eric García muninn með glæsilegri afgreiðslu áður en Dani Olmo skallaði boltann í netið. Martín var óheppinn að gefa ekki þriðju stoðsendinguna þegar García klúðraði dauðafæri.

Barca hélt áfram að sækja eftir jöfnunarmarkið og fundu heimamenn í Inter engin svör. Þeir vörðust af öllum kröftum en það dugði ekki til því Raphinha tókst að setja boltann í netið á 88. mínútu. Sommer varði fyrstu tilraun Raphinha en Brasilíumaðurinn fylgdi eftir með marki.

Inter reyndi að sækja í uppbótartímanum en tókst ekki að skapa mikla hættu. Þess í stað átti Lamine Yamal skot í stöng eftir skyndisókn.

Leikurinn virtist vera að fjara út þegar Inter mönnum tókst að komast upp völlinn af miklu harðfylgi og náði Denzel Dumfries að gefa boltann lágt fyrir markið, þar sem enginn annar en 37 ára gamli miðvörðurinn Francesco Acerbi var mættur að leiða sóknarlínuna. Acerbi kláraði færið gífurlega vel til að jafna á ný. Staðan orðin 6-6 í heildina.

Leikurinn var þó ekki búinn og fékk Yamal flott tækifæri til að skora áður en flautað var til loka venjulegs leiktíma. Honum tókst þó ekki að skora svo staðan var 3-3 eftir venjulegan leiktíma og leikurinn fór í framlengingu.

Í fyrri hálfleik framlengingar ríkti nokkuð jafnræði á vellinum en heimamenn tóku forystuna eftir vandræðagang í varnarleik Börsunga þar sem Davide Frattesi gerði vel að klára með marki. Frattesi kom inn af bekknum og skoraði eftir stoðsendingu frá Mehdi Taremi, sem kom einnig inn af bekknum.

Börsungar reyndu að finna glufur á vörn Inter en það vantaði orku í sóknarleikmenn liðsins. Þeir sköpuðu nokkrar hættulegar stöður en tókst ekki að setja boltann í netið. Yamal átti stórhættulega marktilraun sem Sommer varði meistaralega í hornspyrnu en nær komust gestirnir ekki. Lokatölur 4-3 eftir framlengdan leik, eða 7-6 í heildina.

Inter fer því í annan úrslitaleik Meistaradeildarinnar á þremur árum og mætir annað hvort Paris Saint-Germain eða Arsenal þar. Lærisveinar Simone Inzaghi töpuðu úrslitaleiknum 2023 afar naumlega gegn Manchester City.

Ótrúlega sterkt og skemmtilegt lið Barcelona er því dottið úr leik þrátt fyrir að hafa sýnt glæsilega takta í keppninni. Slakur varnarleikur varð þessu magnaða stórveldi að falli í ár.
Athugasemdir
banner
banner