Man Utd setur verðmiða á Garnacho - Everton og Wolves hafa áhuga á Pepe - Sané skiptir um umboðsmann
   þri 06. maí 2025 23:12
Ívan Guðjón Baldursson
Inzaghi: Sýndum mikið hjarta
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Simone Inzaghi þjálfari Inter var himinlifandi eftir magnaðan sigur gegn Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld. Þetta er í annað sinn á þremur árum sem Inzaghi stýrir liðinu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Inter vann 4-3 eftir framlengda rússíbanareið, þar sem heimamenn leiddu 2-0 í leikhlé en lentu svo einu marki undir þegar uppbótartími venjulegs leiktíma fór af stað. Staðan var 2-3 fyrir gestina á 90. mínútu, þegar varnarmaðurinn þaulreyndi Francesco Acerbi brá sér í sóknina og skoraði jöfnunarmark á 93. mínútu til að senda leikinn í framlengingu.

„Til að byrja með þá verð ég að óska Barcelona til hamingju með að vera með stórkostlegt lið. Við áttum frábæran leik í kvöld og ég verð að hrósa strákunum fyrir ótrúlega frammistöðu í báðum leikjunum gegn svona sterkum andstæðingum. Ég er mjög stoltur af því að þjálfa þessa leikmenn," sagði Inzaghi eftir lokaflautið í kvöld.

„Við þurftum að vera upp á okkar besta til að kreista fram sigur. Strákarnir lögðu allt í sölurnar og eiga skilið að fara í úrslitaleikinn. Við lentum í vandræðum en að lokum tókst okkur að sigra þetta á þrautseigjunni. Við sýndum mikið hjarta."

Fyrri leiknum lauk með 3-3 jafntefli í Barcelona. Samanlagðar lokatölur eru því 7-6 fyrir Inter.
Athugasemdir
banner
banner