Breiðablik hefur fengið 100 þúsund króna sekt eftir að aga- og úrskurðarnefnd tók fyrir mál sem kom upp í síðustu viku.
Það vakti mikla athygli þegar Breiðablik mætti á Víkingsvöll skömmu áður en átti að flauta leik liðanna. Samkvæmt úrskurði aga- og úrskurðarnefndar þá virti Breiðablik ekki fjórar reglur um framkvæmd knattspyrnuleikja samkvæmt Handbók leikja 2023. Þær reglur snúa að því að skrá lið og liðsstjórn inn á vef KSÍ þannig að það sé aðgengilegt klukktíma fyrir leik fyrir fjölmiðla og dómara. Og einnig þarf að sýna dómurum keppnisbúninga klukktíma fyrir leik en það var ekki gert þarna.
Blikar hafa núna fengið sekt frá KSÍ en yfirlýsingu sambandsins má lesa hér fyrir neðan.
Knattspyrnudeild Breiðabliks sektuð
Á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ þann 5. september 2023, var tekin fyrir skýrsla frá eftirlitsmanni á leik Víkings R. og Breiðabliks í Bestu deild karla sem fram fór þann 27. ágúst sl. Eftirfarandi kemur m.a. fram í úrskurðinum:
„Að virtri greinargerð knattspyrnudeildar Breiðabliks og öðrum fyrirliggjandi gögnum er það álit nefndarinnar að framkoma knattspyrnuliðs Breiðabliks í aðdraganda leiks Víkings R. og Breiðabliks í Bestu deild karla þann 27. ágúst sl. hafi verið óásættanleg og falli undir ákvæði 5.10 í lögum KSÍ. Það er afstaða nefndarinnar að með framkomu þeirri sem lýst er í skýrslu eftirlitsmanns hafi Breiðablik virt að vettugi a.m.k. fjórar reglur um framkvæmd knattspyrnuleikja samkvæmt Handbók leikja 2023. Í handbókinni að finna reglur, ábendingar og tilmæli til félaga um framkvæmd leikja í meistaraflokki sem samþykkt var af stjórn KSÍ 29.03.2023.
Handbók leikja sækir stoð sína í heimild í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót, um að stjórn KSÍ setji nánari reglur og leiðbeiningar um einstök mót, sbr. grein 1.4. í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót. Er aga- og úrskurðarnefnd heimilt að beita viðurlögum samkvæmt lögum og reglugerðum KSÍ gagnvart m.a. aðildarfélögum KSÍ vegna brota þeirra á lögum KSÍ, reglugerðum KSÍ og öðrum reglum, sbr. grein 2.3. reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál.
Með vísan til greinar 5.10., sbr. k lið 44.1. greinar í lögum KSÍ ákvað aga- og úrskurðarnefnd KSÍ því að sekta knattspyrnudeild Breiðabliks vegna framkomu knattspyrnuliðs deildarinnar í mfl. karla í aðdraganda leiks Víkings R. og Breiðabliks þann 27. ágúst sl. Þykir upphæð sektar knattspyrnudeildar Breiðabliks hæfilega ákveðin kr. 100.000.“
Hægt er að lesa úrskurðinn í heild sinni með því að smella hérna.
Athugasemdir