Paris Saint Germain 2 - 1 Arsenal (3-1 samanlagt)
1-0 Fabian Ruiz ('27 )
1-0 Vitinha ('69 , Misnotað víti)
2-0 Achraf Hakimi ('72 )
2-1 Bukayo Saka ('76 )
1-0 Fabian Ruiz ('27 )
1-0 Vitinha ('69 , Misnotað víti)
2-0 Achraf Hakimi ('72 )
2-1 Bukayo Saka ('76 )
Paris Saint-Germain mun spila til úrslita í Meistaradeild Evrópu þetta árið eftir að hafa unnið Arsenal, 2-1, í París í kvöld og samanlagt 3-1 í einvíginu.
Arsenal beitti hápressu fyrstu mínúturnar og var Declan Rice hársbreidd frá því að jafna einvígið. Fyrirgjöfin kom frá hægri og á Rice sem reist hæst allra en skalli hans fór naumlega framhjá stönginni vinstra megin.
Tæpri mínútu síðar fengu gestirnir annað dauðafæri er Thomas Partey kastaði löngu innkasti inn á teiginn og á Gabriel Martinelli sem kom á ferðinni, en viðbrögð Gianluigi Donnarumma upp á tíu sem náði að verja boltann til hliðar.
Rafmögnuð byrjun hjá Arsenal-mönnum á meðan heimamenn voru ekki að ná að glíma nógu vel við pressuna.
Donnarumma var í algerum ham. Á 7. mínútu skapaðist aftur hætta eftir langt innkast Partey og í þetta sinn datt boltann út fyrir teiginn og á Martin Ödegaard sem hamraði hann af öllum krafti en aftur brást Donnarumma við á sekúndubroti og varði hann. Markvarsla á heimsmælikvarða.
PSG náði að standa af sér þessa fyrstu umferð af pressu Arsenal og náði aðeins betri tökum á leiknum. Khicha Kvaratskhelia var nálægt því að skora fyrir PSG á 17. mínútu leiksins.
Eftir gott samspil Kvaratskhelia og Desiré Doué fékk Georgíumaðurinn boltann aftur og færði hann á hægri áður en hann lét vaða úr góðu skotfæri en boltinn í stöngina. Svakaleg byrjun á leiknum.
Eina sem vantaði í leikinn var mark og svöruðu heimamenn þeirri beiðni á 27. mínútu. PSG fékk aukaspyrnu eftir brot Declan Rice og eftir þá aukaspyrnu komust Frakkarnir yfir. Aukaspyrnan var skölluð í burtu og var Fabian Ruiz réttur maður á réttum stað fyrir utan teiginn og hamraði hann á lofti efst upp í hægra hornið. Sturlað mark hjá Spánverjanum og PSG komið í tveggja marka forystu í einvíginu.
Tveimur mínútum síðar komust PSG-menn næstum því í 3-0 í einvíginu eftir hraða skyndisókn. Kvarakshelia hljóp fram völlinn með tvo Arsenal-menn í sér en lagði hann til hliðar á Bradley Barcola sem tók eina gabbhreyfingu áður en hann skaut boltanum í átt að marki en David Raya vandanum vaxinn í markinu. Illa farið með dauðafæri.
Staðan í hálfleik 1-0 fyrir heimamönnum sem voru þá 45 mínútum frá úrslitaleiknum.
Arsenal-náði að halda ágætlega í boltann í byrjun síðari og hélt áfram að pressa að marki PSG, en án þess að skapa einhverja sérstaka hættu.
Bukayo Saka átti fyrsta hættulega færi síðari hálfleiksins á 63. mínútu. Hann fékk boltann hægra megin við teiginn, var fljótur að koma honum á vinstri fótinn og skrúfa hann í fjærhornið en Donnarumma aftur með glæsilega vörslu og á hinum endanum varði Raya frá Achraf Hakimi.
Dómari leiksins fékk skilaboð um það að skoða færi Hakimi betur, en skot hans fór af höndinni á Myles Lewis-Skelly. Dómarinn var sendur að VAR-skjánum og var ekki lengi að taka ákvörðun. Vítaspyrna niðurstaðan.
Vitinha fékk það mikilvæga hlutverk að taka vítið en hlaup hans að boltanum var hægt og hikandi. David Raya var löngu búinn að lesa stöðuna og varði það örugglega. Dauðafæri fyrir PSG til að gera út um leikinn en klikkaði á ögurstundu.
Portúgalinn þurfti þó ekkert að pæla of mikið í þessu klúðri því nokkrum mínútum síðar gerði Hakimi svo gott sem út um einvígið. Hann fékk boltann frá varamanninum Ousmane Dembele og skrúfaði hann laglega í hægra hornið.
Arsenal-menn gáfu ekki upp alla von. Bukayo Saka náði að minnka muninn fjórum mínútum síðar. Marquinhos barðist við Leandro Trossard á vinstri vængnum og datt í grasið með tilþrifum.
Ekkert dæmt og áfram hélt leikurinn. Boltanum var komið fyrir á Saka sem kom boltanum í átt að marki. Donnarumma varði fyrstu tilraunina en Saka fékk boltann aftur og lagði hann í netið.
Aðeins nokkrum mínútum eftir markið hans Saka átti hann eitt svakalegasta klúður tímabilsins í Meistaradeildinni. Boltinn kom fyrir markið og framhjá Donnarumma sem reyndi við fyrirgjöfina. Saka einn gegn opnu marki en þrumaði boltanum hátt yfir markið.
Gullið tækifæri til þess að hleypa meiri spennu í einvígið og auka möguleikann á endurkomu, en PSG náði betri tökum eftir taugatrekkjandi mínútur.
PSG er komið áfram í úrslit Meistaradeildarinnar og mætir þar Inter á Allianz-leikvanginum í München. PSG getur orðið meistari í fyrsta sinn í sögunni, en Inter á möguleika á að vinna í fyrsta sinn síðan 2010.
Athugasemdir