Paris Saint-Germain er 45 mínútum frá því að komast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu en liðið leiðir gegn Arsenal, 1-0, í seinni undanúrslitaleiknum í París.
Franska liðið fór með eins marks forystu inn í síðari leikinn og var í raun ótrúlegt að Arsenal hafi ekki jafnað einvígið á fyrstu mínútum leiksins í kvöld.
Declan Rice átti skalla rétt framhjá og þá varði Gianluigi Donnarumma frábærlega í tvígang frá Gabriel Martinelli og síðan markvörslu á heimsmælikvarða frá Martin Ödegaard.
PSG stóð af sér þunga pressu gestanna og komst betur inn í leikinn eftir um það bil fimmtán mínútur. Khvicha Kvaratskhelia átti stangarskot áður en spænski miðjumaðurinn Fabian Ruiz henti blautri tusku í andlit leikmanna Arsenal með stórkostlegu marki við vítateigslínuna á 27. mínútu.
Aukaspyrna PSG var skölluð frá og út á Ruiz sem lyfti boltanum upp áður en hann hamraði honum efst í hægra hornið.
Bradley Barcola gat svo gott sem gert út um einvígið tveimur mínútum síðar en David Raya varði frá honum.
Staðan í hálfleik er 1-0 fyrir PSG og samtals 2-0 í einvíginu, en vonandi er von á svipuðu fjöri í þeim síðari.
Hálfleikstölur:
Paris Saint Germain 1 - 0 Arsenal (2-0 í einvíginu)
1-0 Fabian Ruiz ('27 )
Athugasemdir