Aleksandr Ceferin, forseti evrópska fótboltasambandsins UEFA, gagnrýndi fótboltainnviðina á Ítalíu í viðtali sem SportMediaset birti í gær.
Ceferin var spurður út í misheppnaða tilraun Inter til að hýsa úrslitaleik Meistaradeildarinnar í ár og áform um að byggja nýjan leikvang í Mílanó, þar sem Inter og Milan hafa deilt San Siro í gegnum árin. Hann talaði ekki undir rós í svari sínu.
„Fótboltainnviðirnir á Ítalíu eru til skammar. Þið eruð með eitt stærsta fótboltaland í heimi sem hefur unnið heimsmeistarakeppnir, evrópumeistaramót og ýmsar evrópskar félagsliðakeppnir en er með langverstu innviðina í samanburði við aðrar stórþjóðir í fótboltaheiminum," sagði Ceferin.
„Ef ég á að vera hreinskilinn þá er ég þreyttur á að heyra tal um að bæta innviðina á Ítalíu vegna þess að hingað til hefur þetta bara verið tal. Fótboltafélög í landinu þurfa hjálp frá ríkisstjórninni og sveitarfélögum. Það er fyrir löngu kominn tími til að gera eitthvað því innviðirnir eru hörmulegir."
San Siro mun þó hýsa opnunarhátíð Vetrarólympíuleikanna 2026 í febrúar og svo mun Ítalía hýsa EM 2032 í samvinnu við Tyrkland.
„Það er ennþá langt í Evrópumótið, ég er ekki byrjaður að hafa áhyggjur af því. Mér líður eins og ríkisstjórnin sé byrjuð að skilja hversu brýn þörf er á aðgerðum."
Athugasemdir