Ítalska stórveldið Inter þénaði metfé á heimaleiknum sínum gegn Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.
Leikurinn fór fram í gærkvöldi og stóð Inter að lokum uppi sem sigurvegari eftir ótrúlega viðureign, þar sem lokatölur urðu 4-3 eftir framlengingu.
La Gazzetta dello Sport greinir frá því að Inter var ekki lengi að selja upp alla miðana á leikinn. Heildarupphæð miðasölunnar nam um 14 milljónum evra, sem er nýtt met í ítalskri fótboltasögu.
Inter átti einnig gamla metið þegar liðið tók á móti nágrönnum sínum og erkifjendum í AC Milan í undanúrslitum Meistaradeildarinnar fyrir tveimur árum síðan. Inter hafði einnig betur þá og endaði á að tapa úrslitaleiknum naumlega gegn Manchester City.
Inter seldi miða fyrir 12,5 milljónir evra á leikinn gegn Milan fyrir tveimur árum.
Athugasemdir