Setti fótboltann í fyrsta sætið
„Við vissum hvað við vorum að sækja þegar við keyptum Benó 2023. Hann var búinn að vera hérna á láni og það þurfti engan snilling til að sjá að hann væri stútfullur af hæfileikum og þurfti í rauninni bara að fá lið og þjálfara sem lagði svolítið traust á hann," sagði Samúel Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs Vestra, við Fótbolta.net í dag.
Á miðvikudag var Benedikt V. Warén kynntur sem nýr leikmaður Stjörnunnar en hann var keyptur frá Vestra þar sem hann spilaði síðustu tvö tímabil.
Á miðvikudag var Benedikt V. Warén kynntur sem nýr leikmaður Stjörnunnar en hann var keyptur frá Vestra þar sem hann spilaði síðustu tvö tímabil.
„Benó á Davíð Smára mikið að þakka því hann er ekki bara frábær sóknarmaður heldur líka orðinn góður varnarmaður. Hann þurfti að laga eitt og annað þegar hann kom og er orðinn alhliða góður leikmaður. Hann er góður varnarmaður og geggjaður sóknarmaður."
„Hann á líka Vladimir Tufegdzic mikið að þakka af því að þegar hann kom þá var hann bölvaður pizzastrákur og fór seint að sofa. Túfa kenndi honum að borða rétt og að svefn og hvíld skiptir miklu máli."
„Við vildum ekkert selja Benó, en þegar ég sagði honum að koma vestur og láta reyna á þetta, þá sagði ég honum að hann væri að koma að hjálpa okkur og við værum líka að hjálpa honum, að þetta væri milliskref á ferlinum. Það hefði verið ósanngjarnt af okkur að standa í vegi fyrir honum þegar tækifærið kæmi."
„Við erum ekki bara að missa Benó, við erum líka að missa fjölskyldu hans sem eru orðnir miklir Vestramenn; mamma hans og pabbi og bræður hans. Ég reyndar held að fjölskyldan muni áfram styðja Vestra. Ég er viss um að Benó verði ekki eini Warén til að spila með Vestra, hann á 16 ára bróður (Maríus) sem sé alveg fyrir mér í Vestrabúningnum."
„Benó ákvað þegar hann kom hingað að setja fótboltann í fyrsta sætið. Það var ekki spurning hvort heldur hvenær hann myndi springa út."
Ódýr miðað við gæði
Fjallað hefur verið um að verðmiðinn sé á bilinu 10-13 milljónir. Sammi hefur þetta að segja um verðmiðann:
„Miðað við gæði og þak Benedikts Warén þá var hann ódýr. Ég held, ef hann heldur rétt á spilunum og heldur áfram að bæta sig eins og getur, að Stjarnan verði þá líka bara millistopp á hans ferli."
Enginn þurfi að örvænta
Frá Vestra eru farnir þeir Andri Rúnar Bjarnason, Benedikt Warén, Ibrahima Balde, Jeppe Gertsen og William Eskelinen frá því að tímabilinu lauk - allt leikmenn sem voru í stórum hlutverkum. Þurfa stuðningsmenn Vestra að hafa áhyggjur?
„Nei, stuðningsmenn Vestra þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að Davíð Smári er dag og nótt að skoða leikmenn. Við munum fylla öll þessi skörð og vel það með góðum leikmönnum. Þetta tekur tíma, við viljum vanda valið. Við munum mæta með mjög gott lið til leiks, það er klárt. Það þarf enginn að örvænta."
Fínn gluggi að koma í Vestra
Fótbolti.net fjallaði um það í gær að Vestri hefði selt þrjá leikmenn á árinu.
„Ég hef áður nefnt það og nefni aftur, það ættu að fleiri leikmenn að spá í Vestra, það er fínn gluggi; þrír leikmenn seldir á árinu. Leikmenn geta komið hingað vestur og einbeitt sér að fótboltanum. Þeir leikmenn sem eru nógu hæfileikaríkir og vantar að ná að láta ljós sitt skína eiga klárlega að skoða vestra," segir Sammi.
Athugasemdir