Aston Villa reynir við Cunha - Barcelona getur ekki fengið Rashford - Duran til Sádi-Arabíu?
   fös 06. desember 2024 11:22
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Benedikt vildi taka næsta skref: Veit það var ekki auðvelt fyrir Samma að segja já
Mættur í Stjörnuna og gerir samning út tímabilið 2028.
Mættur í Stjörnuna og gerir samning út tímabilið 2028.
Mynd: Stjarnan
Benó kom fyrst til Vestra á láni árið 2021. Hann hélt svo aftur vestur fyrir tímabilið 2023, hjálpaði liðinu að komast upp í Bestu deildina og hjálpaði svo liðinu að halda sér uppi á liðnu tímabili.
Benó kom fyrst til Vestra á láni árið 2021. Hann hélt svo aftur vestur fyrir tímabilið 2023, hjálpaði liðinu að komast upp í Bestu deildina og hjálpaði svo liðinu að halda sér uppi á liðnu tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mikil gleði hjá Benó og Samma þegar sætið í Bestu deildinni var tryggt haustið 2023.
Mikil gleði hjá Benó og Samma þegar sætið í Bestu deildinni var tryggt haustið 2023.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Benó lék undir stjórn Jökuls sumarið 2019.
Benó lék undir stjórn Jökuls sumarið 2019.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta hefur verið nokkuð langt ferli, áhuginn kom upp eftir að tímabilinu lauk. Ég var ekkert að pæla í þessu strax en þegar áhuginn varð meiri þá fór maður aðeins að spá í þessum möguleika," segir Benedikt V. Warén sem var í vikunni keyptur til Stjörnunnar frá Vestra.

Benedikt er 23 ára kantmaður sem skoraði fimm mörk og lagði upp átta í Bestu deildinni á liðnu tímabili.

Fótbolti.net fjallaði um það í aðdraganda kaupanna að Vestri hefði hafnað tilboðum frá Stjörnunni.

„Það er auðvitað gaman þegar lið hafa áhuga á manni. Maður fékk að heyra af því hvað væri í gangi, fékk hjálp frá góðum mönnum og ráð frá fjölskyldu. Ég var spenntur fyrir þessu og svo þróaðist það þannig að þetta varð að veruleika."

„Ég get ekki tjáð mig mikið um tilboð sem var hafnað, það er ekki mín ákvörðun. Ég var samningsbundinn og Sammi ræður hvort hann hafni tilboðum. Við Sammi töluðum mikið saman síðustu vikur og á endanum þá urðum við sammála um að þetta myndi ganga í gegn."

„Ég ræddi við hann um að mig langaði að skoða þetta, hann vissi stöðuna mína, fjölskyldan mín og kærasta eru í bænum. Sammi sýndi því skilning á endanum. Auðvitað var þetta ekki létt ákvörðun, bæði hjá mér og honum. En í endann held ég að þetta sé rétt ákvörðun."


Gríðalega þakklátur fyrir tímann fyrir vestan
Hvernig er að yfirgefa Vestra?

„Ég átti æðislegan tíma fyrir vestan og er gríðarlega þakklátur fyrir minn tíma þar, þakklátur öllu fólkinu í stjórninni, þjálfurum og leikmönnum. Þetta var ekki létt ákvörðun að fara, en ég lít á þetta sem næsta skref. Mig langaði að taka næsta skref og sjá hvernig það fer."

Ætla sér í Evrópu- og titlabaráttu
Hvað heillar mest við Stjörnuna?

„Stjarnan er frábær klúbbur, með mjög góðan þjálfara í Jökli, góða og unga leikmenn og liðið er virkilega spennandi. Þetta er lið sem er að berjast um Evrópu og titla, ætla sér stóra hluti. Það heillaði mjög mikið og ég er gríðarlega spenntur fyrir tímabilinu."

„Ég held, án þess að hafa tekið æfingu með liðinu, að markmiðið sé að berjast um titla og Evrópu. Stjarnan vill vera topplið á Íslandi."


Lék undir stjórn Jökuls 2019
Benedikt og Jökull unnu saman árið 2019 þegar Benedikt var lánaður í Augnablik þar sem Jökull var þjálfari.

„Jökull þjálfaði mig þegar ég fór á láni í Augnablik í hálft sumar. Hann er gríðarlega góður þjálfur og ég er mjög spenntur að vinna með honum."

Fannstu fyrir því að það væri áhugi frá fleiri félögum?

„Ég fékk að heyra eitthvað, en mesti áhuginn var hjá Stjörnunni og mér leist mjög vel á það. Það heillaði mig mest. Ég þekki til Jökuls og mér finnst Stjarnan spila mjög skemmtilegan fótbolta."

Alveg ljóst að þetta var ekki auðveld ákvörðun
Benedikt var einn allra besti leikmaður Vestra á liðnu tímabili og var klárlega verðmætasta söluvaran í leikmannahópi liðsins. Vestri hefur nú misst 4-5 byrjunarliðsmenn frá því tímabilinu 2024 lauk. Samúel Samúelsson - Sammi - formaður meistaraflokksráðs Vestra, sagði að Benedikt yrði ekki seldur nema fyrir upphæð sem Vestri gæti ekki hafnað. Ertu þakklátur að Sammi hafi sagt já á endanum?
„Já, ég er mjög þakklátur fyrir það. Ég veit það var ekki auðveld ákvörðun. Við áttum mörg samtöl og það var alveg ljóst að þetta var ekki létt. Að lokum held ég að hann hafi áttað sig á því að þetta væri flott tækifæri, flott skref fyrir mig. Ég er þakklátur að hann hafi sagt já og leyft mér að fara þangað," segir Benedikt.

Fjallað hefur verið um að kaupverðið sé á bilinu 10-13 milljónir sem gerir Benedikt að einum dýrasta leikmani sem íslenskt félag hefur keypt.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner