„Ég er með góða tilfinningu. Það er frábært að vera hérna," sagði Frederik Birk, þjálfari Bröndby, þegar hann ræddi við Fótbolta.net í gær. Í kvöld spilar Bröndby, sem er eitt stærsta félag Danmerkur, við Víking í forkeppni Sambandsdeildarinnar.
Birk er að mæta til Íslands í fyrsta sinn og er spenntur fyrir leik kvöldsins.
Birk er að mæta til Íslands í fyrsta sinn og er spenntur fyrir leik kvöldsins.
„Þetta er í fyrsta sinn sem ég kem hingað. Ég og kærastan mín höfum talað um það í mörg ár að koma til Íslands, en í hvert sinn sem við fáum frí þá veljum við af einhverri ástæðu alltaf ströndina og sólarveður. En nú þegar ég er kominn hingað og sé fallegu náttúruna í bland við það sem við elskum mest, að spila fótbolta, þá eru það forréttindi."
Svo þú ætlar að koma hingað með kærustunni seinna?
„Það veltur á úrslitunum," sagði Birk léttur. „Ég talaði við hana stuttlega á hótelinu og sagði við hana að þetta væri eins og við hefðum rætt um, við þyrftum að fara saman hingað einn daginn."
Tilfinningin í hópnum góð
En að leiknum. Hvernig líst þér á að mæta Víkingum?
„Það sem ég hef séð á myndböndum og tölfræðilega, þá er Víkingur sterkt lið með sterka hugsjón. Við sjáum til hvernig þeir spila taktískt á morgun (í kvöld)."
„Tilfinningin okkar er góð. Úrslitin í síðasta leik voru slæm en byrjunin á tímabilinu hefur verið allt í lagi. Við unnum fyrstu tvo leikina og fórum í gegnum lið frá Færeyjum í síðustu umferð Sambandsdeildarinnar. Öll tölfræðin úr því einvígi sýnir að við vorum betra liðið þó við hefðum viljað vinna stærra. Heilt yfir hefur byrjunin verið ágæt en það var ekki ætlunin að koma hingað eftir 0-2 tap á heimavelli."
Bröndby lenti í vandræðum með HB frá Færeyjum í síðustu umferð og það ætti að gefa Víkingum innblástur fyrir þetta einvígi.
„Þeir gáfu okkur góða áskorun en ef þú horfir á færin sem við sköpuðum yfir leikina tvo þá voru þetta ekki rétt úrslit, sérstaklega ef þú horfir á xG-ið. Við hefðum átt að vinna með meira en eins marks mun," sagði Birk og tekur undir það að Bröndby sé sigurstranglegra liðið fyrir einvígið gegn Víkingum þó hann beri mikla virðingu fyrir þeirra liði.
Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir