Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 08. febrúar 2021 18:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Fann það mjög fljótt að ég var ekki hátt skrifaður hjá félaginu"
Ég á eftir að kynnast því en ég býst við því að það verði svipuð upplifun og eitthvað sem hentar vel.
Ég á eftir að kynnast því en ég býst við því að það verði svipuð upplifun og eitthvað sem hentar vel.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Já, ég var strax spenntur fyrir þessu þegar ég skoðaði borgina (Uppsala), liðið og allt í kringum félagið.
Já, ég var strax spenntur fyrir þessu þegar ég skoðaði borgina (Uppsala), liðið og allt í kringum félagið.
Mynd: Sirius
Ég ætla að vinna mér inn sæti í liðinu og reyna að leggja upp og skora einhver mörk, það er svona það helsta.
Ég ætla að vinna mér inn sæti í liðinu og reyna að leggja upp og skora einhver mörk, það er svona það helsta.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Ég náði að verða Íslandsmeistari og spila fullt af leikjum
Ég náði að verða Íslandsmeistari og spila fullt af leikjum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Bjarnason gekk um helgina í raðir sænska félagsins Sirius frá ungverska félaginu Ujpest, Sirius kaupir Aron frá Ujpest. Aron hafði verið á mála hjá Ujpest frá því um mitt sumar 2019 þegar hann var seldur frá Breiðabliki.

Hjá Ujpest kom Aron við sögu í sextán deildarleikjum og tveimur bikarleikjum. Síðasta vor var hann lánaður til Vals þar sem hann varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn og einnig valinn í lið ársins.

Fótbolti.net heyrði í Aroni í dag og spurði hann út í Ujpest, Sirius og Val.

Hvernig var aðdragandinn að skiptunum?

„Þetta byrjaði í raun fyrir tveimur vikum síðan þegar ég heyrði af áhuga frá þeim. Síðan voru viðræður milli liðanna og svo fyrir fimm dögum síðan fóru hlutirnir að gerast nokkuð hratt.“

Kom það fljótt til þín að þetta var það sem þú vildir að myndi gerast?

„Já, ég var strax spenntur fyrir þessu þegar ég skoðaði borgina (Uppsala), liðið og allt í kringum félagið. Eftir að hafa spjallað við menn hjá félaginu þá varð ég sannfærður um að þetta væri rétt skref.“

Var eitthvað vesen í ferlinu eða gekk allt eins og smurt?

„Þetta gekk nokkuð vel fyrir sig myndi ég segja af minni hálfu, ég veit ekki hvernig viðræðurnar voru á milli félaganna."

Hvernig kom þetta til, fylgdist Sirius eitthvað með þér hjá Val?

„Félagið skoðaði klippur af mér frá því á síðasta sumri þegar ég var í Val.“

Þú komst inn á að þú varst strax spenntur fyrir þessu. Varstu farinn að ýta eftir því að fá að fara frá Ujpest?

„Nei, ég svo sem var ekkert ýta neitt. Ujpest vissi fljótt að ég hefði áhuga á því að fara til Svíþjóðar. Þar er ég kominn í land sem er aðeins líkara Íslandi og fótboltinn kannski líkari líka.“

Hvernig var koman til Ungverjalands eftir að þú kemur til baka úr láninu hjá Val, sástu fram á eitthvað hlutverk hjá Ujpest eftir gott tímabil á Íslandi?

„Það tók nýr þjálfari við Ujpest á meðan ég var á Íslandi og hann virtist ekkert hafa kynnt sér hvað ég hefði verið að gera. Ég æfði vel eftir að ég jafnaði mig á meiðslunum en ég fann það mjög fljótt að ég var ekki hátt skrifaður hjá félaginu. Þannig var svona mín upplifun.“

Varstu svekktur að þjálfarinn var ekkert búinn að kynna sér hvað þú hafðir gert á Íslandi?

„Ég var ekkert að svekkja mig á því, þjálfarar eru mismunandi. Ég veit ekki hvað hann var að hugsa með mig þar sem hann talaði ekki við mig um mína stöðu eftir að ég kom út."

Aftur að Sirius, er þetta þá ekki fín lending að fara til félags sem virðist vera á uppleið, eða hvað?

„Jú, fyrstu kynnin núna síðustu daga hafa verið mjög góð. Mér líst mjög vel á hvað liðið er að gera og félagið hefur verið síðustu fjögur ár í efstu deild. Félagið vill gera ennþá betur og það er spennandi, það er kominn nýr gervigrasvöllur til dæmis.“

Verður þetta svipuð upplifun og hjá Val, æft og spilað á sama velli?

„Já, sennilega. Ég á eftir að kynnast því en ég býst við því að það verði svipuð upplifun og eitthvað sem hentar vel.“

Þú fórst að láni til Vals, valinn í lið ársins með góðri frammistöðu, verður Íslandsmeistari og uppskerð líka með þessum skiptum. Eins gott og þetta gat orðið?

„Já, það má segja það, eins gott og þetta gat orðið, vel orðað hjá þér. Ég náði að verða Íslandsmeistari og spila fullt af leikjum þannig það var mjög gott fyrir mig sem leikmann og gott fyrir Valsliðið að vinna mótið.“

Hver eru þín markmið fyrir komandi tímabil?

„Ég ætla að vinna mér inn sæti í liðinu og reyna að leggja upp og skora einhver mörk, það er svona það helsta. Fyrsta markmiðið er núna að koma mér almennilega inn í hlutina og vinna mér sæti í liðinu, hitt kemur ef maður leggur inn vinnuna.“

Ertu kominn með hugann í einhverjar landsliðspælingar?

„Ekkert svoleiðis eins og staðan er í dag. Ég ætla byrja að standa mig hér í sænsku deildinni áður en ég hugsa eitthvað út í það,“ sagði Aron að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner