 
                                                                                        
                        
                                    
                                                    
                
                                                                
                „Við erum alltaf sáttar að taka öll stigin þrjú og að halda markinu okkar hreinu og ekki verra að skora fimm. Það voru erfiðar aðstæður í dag þannig að við erum bara mjög sáttar með okkar frammistöðu.“ Sagði Elísa Viðarsdóttir fyrirliði Vals  um góðan dag á skrifstofunni þegar Valur vann 5-0 sigur á Keflavík suður með sjó fyrr í kvöld.
                
                
                                    Lestu um leikinn: Keflavík 0 - 5 Valur
Skynskemi og þolinmæði voru einkennandi í leik Valskvenna í kvöld sem fóru sér í engu óðslega og biðu þolinmóðar eftir sóknarfærum gegn liði Keflavíkur sem varðist djúpt á vellinum.
„Við erum að æfa okkur í því að halda svolítið betur í boltann og reyna að velja færin og gegnumbrotin okkar betur. Mér fannst það ganga vel í dag, við vorum ótrúlega þolinmóðar á boltanum hvar sem á var litið hvort sem það var aftast eða í fremstu línu. Stórt hrós á stelpurnar fyrir að sýna þessu verkefni þolinmæði og í raun og veru virðingu og þannig náð að brjóta þær á bak aftur.“
Framundan hjá Elísu og Val er undanúrslitaleikur í Mjólkurbikarnum gegn Stjörnunni næstkomandi föstudag. Um komandi leik sagði Elísa.
„Stjarnan er með hörkugott lið og þær hafa algjörlega sýnt virði sitt í þessari toppbaráttu og það má ekki vanmeta þær. Við þurfum að mæta klárar í slaginn á föstudaginn og það er bara að duga eða drepast þar. Okkur þykir ekkert leiðinlegt að fara í svona úrslitaleiki og ég er viss um að við mætum þeim á föstudaginn fullgíraðar og klárar í þann leik.“
Sagði Elísa en allt viðtalið má sjá hér að ofan.
Athugasemdir
                                                                
                                                        
 
        




















 
         
     
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                        
                        
        
         
                    
        
         
                 
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                            
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                
                        
        
        

