Vestri vann dramatískan endurkomusigur gegn Fram á Ísafirði í dag. Fótbolti.net ræddi við Davíð Smára Lamude, þjálfara Vestra, eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Vestri 3 - 2 Fram
„Tilfinningin eftir leikinn er algjörlega frábær. Við lendum tvisvar undir og sýndum gríðarlega mikinn karakter, vinnusemi og vilja. Í fyrri hálfleik var eitthvað orkuleysi í okkur og jafnvel Frömurum líka."
„Á einhverjum kafla í fyrri hálfleik var þetta ekki hálf skemmtilegt á að horfa en heilt yfir ótrúlega skemmtilegur leikur, mikið af færum. Mér leið eins og það hafi verið 15 skot á bæði mörkin. Framararnir fá urmul af hornspyrnum og við þurftum að verjast vel. Ég er svolítið ósáttur með mörkin sem við fáum á okkur, voru pínu ódýr, allavega annað markið.">
Vestri mætir Stjörnunni í næstu umferð. Vestri er í 4. sæti með einu stigi meira en Stjarnan sem á leik til góða gegn Víkingi á eftir.
„Nánast hver einasti leikur í þessari deild spilast eins og úrslitaleikur í bikar því það er mikið undir og einn sigur kemur liðunum á þægilegri stað og eitt tap kemur þeim aftur á móti í gríðarlega óþægilega stöðu. Við sáum það á leiknum í dag að spennustigið var hátt. Það orsakaðist í gæðum leiksins á köflum. Heilt yfir ótrúlega skemmtilegur leikur og gaman að það sé mikið undir. Skemmtilegt uppsetning á mótinu þegar þetta er svona, sérstaklega þegar deildin er svona jöfn," sagði Davíð Smári.
Athugasemdir