Brynjólfur Andersen Willumsson var í byrjunarliði Kristiansund sem vann magnað afrek í norska boltanum í kvöld.
Kristiansund heimsótti Vålerenga í seinni viðureign liðanna í umspilsleik um síðasta lausa sætið í efstu deild norska boltans á næsta ári.
Kristiansund vann umspil B-deildarliða um sæti í efstu deild og fékk úrslitaleik við Valerenga, sem endaði í þriðja neðsta sæti efstu deildar í haust.
Valerenga byrjaði umspilið á 0-2 sigri á útivelli og því var brekkan ansi brött fyrir Brynjólf og félaga í kvöld, en þeir kreistu fram ótrúlega frammistöðu og skoruðu tvö mörk á lokakaflanum til að knýja framlengingu.
Henni lauk með jafntefli og því var gripið til vítaspyrnukeppni, þar sem Brynjólfur steig á punktinn og skoraði úr annari spyrnu Kristiansund, sem vann vítakeppnina 5-4.
Frábær sigur fyrir Brynjólf og félaga sem munu keppa við bestu lið Noregs á næsta ári.
Það voru fleiri Íslendingar sem komu við sögu, en allir léku þeir í tapliðum. Lyngby datt út úr danska bikarnum á heimavelli gegn B-deildarliði Fredericia, í leik þar sem Andri Lucas Guðjohnsen var í byrjunarliðinu og Sævar Atli Magnússon kom inn af bekknum á 58. mínútu.
Á svipuðum tíma töpuðu Guðlaugur Victor Pálsson og Alfreð Finnbogason í Eupen heimaleik gegn Genk í efstu deild belgíska boltans. Eupen er þar í fallbaráttu, með 15 stig eftir 17 umferðir.
Að lokum var Mikael Neville Anderson í byrjunarliði AGF sem komst áfram í danska bikarnum þrátt fyrir tap á útivelli gegn Bröndby.
Vålerenga 0 - 2 Kristiansund (2-2 samanlagt)
4-5 í vítaspyrnukeppni
Lyngby 0 - 1 Fredericia (2-4 samanlagt)
Bröndby 2 - 1 Århus (2-3 samanlagt)
Eupen 1 - 3 Genk
Athugasemdir