Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 12. janúar 2022 19:17
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Jón Daði segir markið gefa sér mikið - „Gengur ekki lengur"
Icelandair
Jón Daði Böðvarsson.
Jón Daði Böðvarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hann vonast til að fara í þessum mánuði.
Hann vonast til að fara í þessum mánuði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Daði í leik með Millwall.
Jón Daði í leik með Millwall.
Mynd: Getty Images
Sóknarmaðurinn Jón Daði Böðvarsson skoraði sitt fjórða landsliðsmark þegar Ísland gerði jafntefli gegn Úganda í vináttulandsleik í Tyrklandi.

Jón Daði spjallaði við fréttamenn eftir leikinn.

Lestu um leikinn: Ísland 1 -  1 Úganda

„Það er rosalega gott fyrir mig - meira en fólk heldur - að fá þessar mínútur og mark í þokkabót. Það gefur mér sjálfstraust og orku í næstu skref sem eru framundan," sagði Jón Daði sem hefur lítið sem ekkert spilað síðustu mánuði. Staða hans hjá félagsliði sínu, Millwall á Englandi, er alls ekki góð og vonast hann til þess að komast þaðan í þessum mánuði.

„Fyrst og fremst er gott að komast í keppnisumhverfi aftur og spila fótboltaleik, að fá þessar mínútur í tankinn þannig að maður sé á góðum stað í næsta skrefið."

Jón Daði segist þakklátur að fá tækifærið með landsliðinu þegar hann hefur ekkert spilað með félagsliði sínu upp á síðkastið. „Þetta er ekki kjörstaða sem ég er búin að vera í; ég er ekki búinn að vera í hóp allt tímabilið. Þetta er ekki ákjósanleg staða fyrir þjálfara upp á leikform og annað. Ég er búinn að æfa virkilega vel og mér fannst ég koma ágætlega út úr þessum leik. Ég er alltaf þakklátur að fá tækifærið með landsliðinu."

Hann segir að það hafi verið frábær tilfinning að skora mark. Markið var laglegt, en Jón Daði skallaði boltann í netið eftir sendingu frá Viðari Ara Jónssyni.

„Þetta var frábært spil og Viðar Ari kemur með frábæra sendingu. Ég þarf bara að setja hausinn í þetta. Það er frábær tilfinning að skora, sama hvert verkefnið er. Ég er glaður og þetta gefur mér miklu meira en fólk heldur."

Þeir vilja mig í burtu
Jón Daði fékk að heyra það síðasta sumar að hann væri ekki inn í myndinni hjá Millwall. Hann stefnir á að yfirgefa félagið í þessum mánuði.

„Ég fékk að heyra það fyrir síðasta að glugga að ég væri ekkert inn í myndinni hjá þjálfaranum. Hann ætlaði að stóla á aðra framherja í staðinn. Þeir vilja mig í burtu og þá fæ ég ekki tækifæri. Þessi heimur er brútal og þegar þú ert ekki inn í myndinni, þá ertu ekki trítaður eins vel og þú vilt. Maður er búinn að vera í frystikistunni ansi lengi og þetta er búið að vera virkilega erfiður tími andlega. Þess vegna er ég að reyna að komast eitthvað í janúar, komast í alvöru umhverfi og endurvekja mig sjálfan."

Jón Daði kemst ekki nálægt því að vera í myndinni hjá Millwall, það er bara stefnan hjá félaginu. „Þetta er ákveðin taktík ef þú vilt ekki ákveðna vöru, þá viltu að henni líði ekki vel."

Hann var í viðræðum við félög síðasta sumar en fór ekki. „Samningaviðræður gengu ekki upp. Það eru alls konar hlutir sem þurfa að smella. Síðan er maður með fjölskyldu og maður þarf að hugsa hvar maður vill vera upp á fjölskylduna að gera. Þau tækifæri sem ég var að fá, þau voru ekki eins ákjósanleg og ég hefði viljað. Ég sé ekkert eftir því í dag. Ég lít fram á veginn og reyni að koma mér í burtu í janúar."

Jón Daði segir að þær þreifingar sem eru í gangi núna séu í Englandi og Norðurlöndunum. Hann vonast til að fá að spila aftur fótbolta sem fyrst. „Það gengur ekki lengur að vera þarna."

Bara skemmtilegt
Jón Daði er með reynslumeiri leikmönnum íslenska landsliðsins þessa stundina. Liðið er búið að yngjast mikið og er Jón Daði einn af þeim leikmönnum sem þarf núna að miðla reynslu sinni. Í þessu janáurverkefni eru margir nýliðar að fá sitt fyrsta tækifæri með A-landsliðinu.

„Mér finnst þetta bara spennandi. Það er jákvætt að fá unga nýliða inn í þetta... maður reynir að miðla sinni reynslu og hjálpa þeim eins og maður getur. Það er ákveðið hlutverk sem maður þarf allt í einu að eigna sér. Það er bara skemmtilegt," sagði Jón Daði.
Athugasemdir
banner
banner