Carrick gæti stýrt æfingu Man Utd á miðvikudag - Everton vill White frá Arsenal - Dortmund fylgist með Bobb
banner
   mán 12. janúar 2026 15:20
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Í mun betri málum markmannslega en á síðasta tímabili"
Stubbur.
Stubbur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ívar Arnbro.
Ívar Arnbro.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rasheed er með Gautaborg í æfingaferð liðsins og gæti skrifað undir samning.
Rasheed er með Gautaborg í æfingaferð liðsins og gæti skrifað undir samning.
Mynd: IFK Värnamo
Steinþór Már Auðunsson og Ívar Arnbro Þórhallsson munu berjast um aðalmarkmannsstöðuna hjá KA næsta sumar. Steinþór Már, eða Stubbur eins og hann er oft kallaður, hefur verið í stóru hlutverki frá því hann mætti aftur í KA fyrir tímabilið 2021.

Stubbur er fæddur 1990 og er sextán árum eldri en Ívar sem hefur varið mark Hattar/Hugins og Völsungs síðustu tvö tímabil.

Á liðnu tímabili var KA með þrjá markmenn. Jonathan Rasheed kom fyrir tímabilið en varð fyrir því óláni að slíta hásin og William Tönning veitti Stubbi samkeppni. Tönning var ekki nógu góður og verður ekki áfram hjá félaginu. Nú verða það Stubbur og Ívar sem munu berjast um aðalmarkmannstöðuna.

Fótbolti.net ræddi við Hallgrím Jónasson, þjálfara KA, um markmannsstöðuna.

„Ívar var aðalmarkmaður í 2. deild 2024 og svo aðalmarkmaður í 1. deild 2025, búið að blóðga hann aðeins þar og hann staðið sig ótrúlega vel. Við teljum hann kláran í að vera einn af tveimur markmönnum hér hjá okkur."

„Við vorum í miklu brasi í fyrra í markmannsmálunum og það hafði mikil áhrif á okkur. Það sjá það allir sem vilja að fyrstu þrír kostirnir spiluðu ekki nógu vel hjá okkur. Jonathan Rasheed er sennilega að fara semja við félag sem er með lið í toppbaráttunni í Allsvenskan (Gautaborg) - það hefði verið aðeins öðruvísi ef hann hefði verið heill. Stubbur meiddist líka og þurfti að fara í aðgerð."

„Að markmannsmálin séu komin á hreint er æðislegt. Stubbur er í mjög góðu formi, hann var mjög áhugasamur að halda áfram. Ívar er kominn með mikla reynslu, hann er yngsti markmaður á Íslandi sem var að spila í efstu tveimur deildum á síðasta ári. Hann er landsliðsstrákur sem á framtíðina fyrir sér. Eins og staðan er núna erum við í mun betri málum markmannslega séð en á síðasta tímabili,"
segir Hallgrímur. Ætla má að Ívar Arnbro sé þriðji kosturinn sem Hallgrimur nefnir, en KA gat ekki kallað hann til baka frá Völsungi úr láni.

Ívar Arnbro á að baki 16 leiki fyrir yngri landsliðin. Jóhann Mikael Ingólfsson er svo líklega þriðji kostur KA sem stendur, hann er fæddur árið 2007 og á að baki tvo unglingalandsleiki.
Athugasemdir
banner
banner