Allt bendir til þess miðvörðurinn Kári Árnason verði ekki með íslenska landsliðinu á morgun þegar liðið mætir Póllandi í vináttulandsleik í Varsjá.
„Ég býst ekki við því að vera með gegn Póllandi, ég held að það sé best að taka ekki neinar áhættur í þessu. Ég verð sennilega klár á móti Slóvakíu, það er bara Lars og Heimis að ákveða það," segir Kári sem meiddist á ökkla á æfingu í gær.
„Ég snéri mig frekar illa, svo einfalt er það."
Uppgjöf í Úkraínu
Kári og félagar hans í sænska liðinu Malmö hafa verið í eldlínunni í Meistaradeild Evrópu þar sem liðið er með þrjú stig á botninum eins og Shaktar Donetsk. Malmö tapaði illa fyrir Shaktar á dögunum 4-0.
„Við höfum verið skelfilegir á útivöllum. Á móti Shaktar í Úkraínu var okkar versti leikur á tímabilinu eftir að við vorum mjög góðir gegn þeim heima. Svo var bara uppgjöf í Úkraínu og það þarf að fara yfir það og stokka upp í leikmannamálum," segir Kári sem fékk rautt spjald í leiknum.
Brottvísunin þýðir að hann verður í banni þegar Malmö tekur á móti Zlatan Ibrahimovic og félögum í PSG. Zlatan er frá Malmö og mikil spenna fyrir þeim leik í Svíþjóð. Kári segir svekkjandi að missa af þeim leik.
„Það er alveg eins og það er svekkjandi að geta ekki tekið þátt í þessum leik (gegn Póllandi). Það sem gerir þetta enn meira pirrandi er að ég fer í bann vegna dómaraskandals. Gulu spjöldin voru mjög ódýr. Það myndi enginn einasti miðvörður hanga inni í ensku deildinni ef þetta eiga að vera gul spjöld."
Viðtalið við Kára má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir

























