Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 13. nóvember 2022 22:19
Brynjar Ingi Erluson
Ronaldo opnar sig í viðtali við Piers Morgan: Man Utd sveik mig og gerði mig að svörtum sauð
Cristiano Ronaldo
Cristiano Ronaldo
Mynd: EPA
Samband Ronaldo og Ten Hag er ekki gott
Samband Ronaldo og Ten Hag er ekki gott
Mynd: Getty Images
Cristiano Ronaldo, leikmaður Manchester United, lofaði viðtali undir lok gluggans þar sem hann ætlaði að útskýra mál sitt og nú hefur hann gert það í viðtali við Piers Morgan, en hann segir Man Utd hafa svikið sig.

Ronaldo hefur þurft að dúsa mikið á bekknum undir nýjum stjóra og það eftir að hafa skorað 18 mörk í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Með nýjum stjóra koma breytingar og ljóst að Ronaldo var ekki hluti af þeim.

Ronaldo var ekki með á undirbúningstímabilinu hjá United og því ekki búinn að vinna sér inn byrjunarliðssæti. Hann fékk að byrja í Evrópudeildinni en það var allt of sumt. Þó var ástæða fyrir því að hann var ekki með á undirbúningstímabilinu en hann kemur inn á að í viðtalinu við Piers að dóttir hans hafi verið veik í júlí og þurfti að fara á spítala og því gat hann ekki verið með, en fékk enga samkennd frá stjórnarmönnum United.

Þessi markahæsti leikmaður allra tíma er reiður og sár yfir meðferðinni sem hann hefur fengið hjá United. Hann talar einnig um Erik ten Hag, stjóra United.

Ten Hag setti Ronaldo í agabann eftir leikinn gegn Tottenham en framherjinn yfirgaf völlinn áður en flautað var til leiksloka og neitaði að koma inná. Hann var þá ekki inni í klefa þegar leikmenn fögnuðu.

„Ég sýni honum enga virðingu því ég fæ enga virðingu frá honum. Ef þú sýnir mér ekki virðingu þá mun ég aldrei sýna þér virðingu,“ sagði Ronaldo við Morgan.

Þetta þýðir væntanlega það að Ronaldo sé á förum frá United í janúar en viðtalið við Morgan er um 90 mínútna langt. Ronaldo er svartur sauður og var vanvirtur af United.

Ronaldo segir Ten Hag og stjórnarmenn hafa reynt að losa sig við hann. Portúgalska leikmanninum sárnaði það.

„Ekki bara þjálfarinn heldur tveir eða þrír aðrir sem eru nálægt honum. Mér fannst ég svikinn. Ég ætti ekki að segja það en mér er sama og fólk ætti að hlusta og mér finnst ég svikinn og finnst eins og sumir vilja mig ekki hérna. Ekki bara á þessu ári heldur líka á síðasta ári.“

Það kom kappanum á óvart hvað lítið hafði breyst á æfingasvæði félagsins frá því hann var síðast þar honum leið eins og hann væri kominn aftur í tímann þegar hann snéri aftur til United.

„Síðan Sir Alex Ferguson hætti þá hefur ekki verið nein þróun á liðinu. Það var engin bæting og eftir að Ole Gunnar er rekinn er Ralf Rangnick fenginn sem þjálfari, þegar hann er yfirmaður knattspyrnumála. Það kom ekki bara mér á óvart heldur öllum í heiminum. Það breyttist ekkert. Sundlaugin, potturinn, ræktin, eldhúsið og kokkarnir, tíminn stoppaði bara hjá þeim. Það kom mér á óvart og ég bjóst við að sjá meiri tækni og betri innvið en því miður sé ég margt sem ég var vanur að sjá þegar ég var 20, 21 árs eða 23 ára og það kom mér á óvart," sagði Ronaldo meðal annars í viðtalinu sem verður birt í heild sinni á miðvikudag og fimmtudag.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner