Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
   sun 13. desember 2020 11:30
Ívan Guðjón Baldursson
Quincy Promes handtekinn - Grunaður um stunguárás
Mynd: Getty Images
Hollenski framherjinn Quincy Promes gæti verið í vandræðum en hann er grunaður um alvarlega líkamsárás og gæti verið dæmdur til fjögurra ára fangelsisvistar.

Promes var handtekinn í morgun vegna stunguárásar og er í fangaklefa þessa stundina.

Promes er 28 ára gamall og er algjör lykilmaður í öflugu liði Ajax. Hann skoraði 16 mörk í 28 leikjum á síðustu leiktíð og er kominn með 3 mörk í 8 deildarleikjum í haust.

Málið er sagt hafa atvikast þannig að Promes hélt stórt fjölskylduboð í lok júlí þar sem hann lenti í háværu rifrildi við fjölskyldumeðlim. Rifrildið endaði með því að Promes stakk ættingja sinn og hefði farið verr ef aðrir fjölskyldumeðlimir hefðu ekki stöðvað árásina. Stunguárásin var þó ekki kærð til lögreglu fyrr en um miðjan nóvember.

„Við heyrðum af þessu atviki í fyrsta sinn fyrir mánuði síðan," svaraði talsmaður lögreglunnar þegar hann var spurður út í hvers vegna Promes hafi ekki verið handtekinn fyrr. „Þá hrintum við rannsókn af stað sem leiddi til handtöku í morgun."

Ajax borgaði 15 milljónir evra til að kaupa Promes frá Sevilla í fyrra en fyrir það hafði Promes spilað fyrir Spartak Moskvu, Go Ahead Eagles og FC Twente.

Promes á 46 leiki að baki fyrir hollenska landsliðið.
Athugasemdir
banner
banner