Palace opið fyrir því að selja enska tvíeykið - Real Madrid vill að Man Utd nýti endurkaupsrétt sinn á Alvaro - Vardy orðaður við Leeds
   fim 15. ágúst 2024 10:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Aldrei skilið af hverju menn verða hörundsárir þegar boðið er í þeirra leikmenn"
Arnar Gunnlaugsson.
Arnar Gunnlaugsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helgi Guðjónsson.
Helgi Guðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gísli Gottskálk Þórðarson.
Gísli Gottskálk Þórðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Félagaskiptaglugganum var skellt í lás á miðnætti á þriðjudagskvöld. Víkingur, topplið Bestu deildarinnar, var að reyna þétta raðirnar fyrir endasprettinn og baráttu í Evrópu.

Það hins vegar gekk ekki, ÍA og Fram höfnuðu tilboðum í Viktor Jónsson og Fred.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var spurður út í glugga Víkings í viðtali við Fótbolta.net sem tekið var í gær.

„Við reyndum við eitthvað, en það eru bara fáir leikmenn í boði sem geta hentað okkur. Þeir þurfa að vera frábærir í fótbolta til að eiga séns á að komast í liðið hjá okkur. Við vorum ekki að reyna við menn í neinni sérstakri stöðu á vellinum, en við reyndum eitthvað og það gekk ekki eftir."

„Það sem er kannski ánægjulegt við gluggann heima núna er að það eru loksins komnar einhverjar fjárhæðir sem skipta máli. Það gerir það verkum að Evrópuliðin þurfa að rífa upp veskið þegar þau reyna að styrkja hópinn. Það tókst ekki hjá okkur undir lokin, en ég er bara mjög ánægður með okkar hóp. Við fengum Tarik Ibrahimagic í glugganum og ég myndi því segja að glugginn okkar hafi verið mjög vel heppnaður,"
segir Arnar.

Hvað finnst þér um að það séu önnur félög að reyna fá ykkar leikmenn?

„Það er bara geggjað. Ég hef aldrei skilið af hverju menn verða hörundssárir þegar það er verið að bjóða í leikmenn, það hlýtur að þýða að þeir séu að gera góða hluti. Ég hef mjög gaman af því í raun og veru. Það eru líka ýmis látalæti í gangi, ef maður býður í einhvern leikmann og það félag er fúlt, þá kannski býður það í einhvern annan leikmann hjá þér í staðinn. Það er bara gaman."

Arnar er þar væntanlega að tjá sig um Fram sem svaraði tilboði Víkings í Fred með því að bjóða í Helga Guðjónsson. Gísli Gottskálk Þórðarson og Helgi voru þeir leikmenn sem boðið var í hjá Víkingi á gluggadeginum.

Allt að smella í gír hjá Gísla
Arnar var spurður út í Gísla sem hefur verið í stóru hlutverki að undanförnu eftir að hafa ekki spilað svo mikið þar á undan. Er eitthvað sem veldur því að Gísli fór í stærra hlutverk í síðasta mánuði en hann hafði verið í þar á undan?

„Það er hans þróun sem leikmaður hjá okkur sem veldur því að hlutverkið er orðið stærra. Hann kemur til okkar frá Ítalíu aðeins brotinn, það hefur tekið smá tíma að byggja hann upp. Fótboltahæfileikarnir sem við sjáum í dag, við sáum þá strax á fyrstu æfingu. Það er bara svo margt annað í fótbolta sem þarf að hafa ofan á að vera teknískt góður. Hann þurfti að leggja hart á sig til að ná sér í toppform, það voru smá meiðsli hér og þar sem komu í veg fyrir að hann gæti byrjað aðeins fyrr. Svo þurfti hann að læra inn á kerfið okkar og hvernig við spilum."

„Núna er þetta allt að smella í gír. Einhverjir kannski tengja það við að Pablo hafi meiðst. En Gísli var byrjaður að spila á fullu áður en Pablo meiddist, spilaði m.a. með honum í leiknum sem Pablo meiddist í."

„Gísli er bara búinn að vera stórkostlegur fyrir okkur. Ekki oft sem maður sér miðjumann með hans hæfileika,"
segir Arnar.

Þeir Gísli Gotti og Helgi verða í eldlínunni klukkan 16:00 þegar Víkingur mætir Flora Tallinn í úrslitaleik um sæti í 4. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni. Sá leikur verður í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner