„Tilfinningin er góð. Ég var mjög hissa þegar ég var valinn í þennan hóp en mjög ánægður," segir markvörðurinn ungi Frederik Schram sem er í íslenska landsliðshópnum. Frederik hefur aldrei búið á Íslandi en á íslenska móður.
Hann hefur staðið sig mjög vel með U21-landsliði Íslands og er nú með A-landsliðinu í Slóvakíu.
Hann hefur staðið sig mjög vel með U21-landsliði Íslands og er nú með A-landsliðinu í Slóvakíu.
„Okkur í U21-liðinu hefur gengið vel og erum á toppi riðils okkar, við höfum verið að ná góðum úrslitum. Það var sérstaklega gott að ná fjórum stigum gegn Úkraínu og Skotlandi í síðustu leikjum."
„Ég er íslenskur en fæddist í Danmörku og hef alltaf spilað þar. Ég hef verið með öllum yngri landsliðum Íslands og nú er ég hér."
Veit að ég verð að fá að spila
Sparkspekingurinn Hjörvar Hafliðason furðaði sig á því að Frederik hafi verið valinn í A-landsliðið í ljósi þess að hann er varamarkvörður hjá Væstsjælland í dönsku B-deildinni.
„Það er rétt að ég hef ekki mikið spilað, ég er í samkeppni við mjög góðan markvörð hjá Vestsjælland," segir Frederik. „Ég er meðvitaður um að á mínum aldri er mikilvægt að spila leiki. Ég æfi vel á hverjum degi, ég þarf bara að sýna þolinmæði og er tilbúinn að koma inn ef á þarf að halda. Ég veit að ég verð tilbúinn þegar tækifærið kemur."
Frederik getur spilað með danska landsliðinu. Hvað myndi hann gera ef knattspyrnusambandið í Danmörku myndi hringja?
„Ég myndi segja við þá að ég væri íslenskur. Svo einfalt er það."
Viðtalið við Frederik, sem sjá má í sjónvarpinu hér að ofan, var tekið á ensku. Þegar hann er spurður að því hvort næsta viðtal verði á íslensku er svarið:
„Það er mjög góð spurning. Ég er að taka framförum í íslensku en vill taka viðtöl á ensku núna til að hindra að ég verði eitthvað misskilinn. Ég tala að mestu íslensku við strákana. Ég er að verða betri í íslensku svo það er aldrei að vita," segir Frederik sem endaði svo viðtalið á íslensku.
Athugasemdir
























