Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
banner
   þri 16. apríl 2024 21:05
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin: PSG og Dortmund sneru stöðunni við
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Sabitzer skoraði og gaf tvær stoðsendingar í fræknum sigri.
Sabitzer skoraði og gaf tvær stoðsendingar í fræknum sigri.
Mynd: Borussia Dortmund
Mynd: EPA
Paris Saint-Germain og Borussia Dortmund eru fyrstu liðin til að tryggja sig í undanúrslit Meistaradeildarinnar 2024 eftir frábæra sigra í 8-liða úrslitum.

Bæði liðin töpuðu fyrri viðureignunum gegn spænsku stórveldunum Barcelona og Atlético Madrid, en tókst að snúa stöðunni við með góðum sigrum í kvöld.

PSG heimsótti Barcelona á Nývang eftir 2-3 tap á heimavelli og lenti undir snemma leiks þegar Raphinha skoraði þægilegt mark eftir glæsilegan undirbúning frá Lamine Yamal.

Börsungar voru því komnir með tveggja marka forystu á heimavelli, en þá gerði varnarmaðurinn Ronald Araújo klaufaleg mistök þegar hann braut af sér sem aftasti varnarmaður og rændi upplögðu marktækifæri af Bradley Barcola.

Araujo fékk réttilega að líta rauða spjaldið og réðu tíu Börsungar ekki við gestina frá París, sérstaklega eftir að Xavi neyddist til að skipta Lamine Yamal af velli til að fá stöðugleika á miðju vallarins eftir rauða spjaldið.

Það leið ekki á löngu þar til PSG tókst að minnka muninn í heildina, þegar Ousmane Dembélé skoraði gegn sínum fyrrum liðsfélögum eftir undirbúning frá Barcola.

Það var í upphafi síðari hálfleiks sem PSG tókst að jafna viðureignina þegar Vitinha skoraði með frábæru skoti utan vítateigs í kjölfar hornspyrnu. Xavi fékk að líta beint rautt spjald á bekk Barca skömmu síðar þegar hann missti stjórn á skapi sínu og rústaði varnargarðinum sem hafði verið byggður í kringum eina vallarmyndavélina. Xavi var ósáttur með smávægilega dómaraákvörðun vegna brots á miðju vallarins en leikur liðsins lagaðist ekki við þetta reiðiskast.

PSG var áfram sterkara liðið á vellinum og fékk dæmda vítaspyrnu skömmu eftir rauða spjaldið hans Xavi, sem Kylian Mbappé skoraði úr.

Á þessum tímapunkti var PSG komið með eins marks forystu í heildarviðureigninni og neyddust tíu Börsungar því til að sækja af fullum krafti á lokakafla leiksins. Vörnin galopnaðist við það og fengu gestirnir frá París frábær færi til að tryggja sér sigurinn en Marc-André ter Stegen sá við þeim allt þar til undir lokin, þegar Mbappe innsiglaði glæsilegan sigur með marki af stuttu færi eftir slæma hreinsun Jules Koundé.

Lokatölur urðu 1-4 í Barcelona og vinnur PSG því viðureignina 6-4 í heildina.

Slagurinn sem átti sér stað í Dortmund var engu síðri þar sem heimamenn byrjuðu af krafti og leiddu með tveimur mörkum í leikhlé.

Dortmund var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og skoruðu Julian Brandt og Ian Maatsen góð mörk eftir stoðsendingar frá Mats Hummels og Marcel Sabitzer.

Diego Simeone, þjálfari Atlético, gerði þrefalda skiptingu í hálfleik sem skilaði sér strax með tveimur mörkum á fyrsta stundarfjórðunginum.

Mats Hummels varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir fyrirgjöf frá Mario Hermoso sem var nýkominn inná, áður en Angel Correa, sem hafði einnig verið skipt inn í hálfleik, jafnaði metin.

Staðan var þá 2-2 í Dortmund en Atletico leiddi í heildina eftir 2-1 sigur á heimavelli í fyrri leiknum.

Lærisveinar Simeone eru frægir fyrir góðan varnarleik en þeir réðu ekki við sóknarleik Dortmund, þar sem Marcel Sabitzer var allt í öllu með stórhættulegum hlaupum sínum frá miðjunni.

Sabitzer lagði fyrst upp fyrir Niclas Füllkrug með frábærri fyrirgjöf, en Fullkrug gerði ótrúlega vel að stýra boltanum í netið með skalla úr erfiðu færi, áður en hann skoraði sjálfur það sem reyndist vera sigurmark viðureignarinnar.

Atletico fann ekki kraftinn til að skora annað mark til að knýja leikinn í framlengingu og urðu lokatölur 4-2 í Dortmund, eða 5-4 samanlagt.

Barcelona 1 - 4 PSG (4-6 samanlagt)
1-0 Raphina ('12)
1-1 Ousmane Dembele ('40)
1-2 Vitinha ('54)
1-3 Kylian Mbappe ('61)
1-4 Kylian Mbappe ('89)
Rautt spjald: Ronald Araujo, Barcelona ('29)
Rautt spjald: Xavi, Barcelona ('56)

Dortmund 4 - 2 Atletico Madrid (5-4 samanlagt)
1-0 Julian Brandt ('34 )
2-0 Ian Maatsen ('39 )
2-1 Mats Hummels ('49 , sjálfsmark)
2-2 Angel Correa ('64 )
3-2 Niclas Fullkrug ('71 )
4-2 Marcel Sabitzer ('74 )
Athugasemdir
banner
banner
banner