Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 16. september 2019 17:51
Elvar Geir Magnússon
Emil Atla um erfiða tíma: Tíminn hefur verið stopp
Emil Atlason, sóknarmaður HK.
Emil Atlason, sóknarmaður HK.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarmaðurinn Emil Atlason skoraði jöfnunarmark HK gegn KA djúpt í uppbótartímanum þegar liðin gerðu 1-1 jafntefli á Akureyri í 20. umferð Pepsi Max-deildarinnar.

Þetta var fyrsti leikur Emils síðan faðir hans, fótboltagoðsögnin Atli Eðvaldsson, var borinn til grafar eftir baráttu við krabbamein.

Atli lést 2. september og segir Emil að þetta hafi tekið mjög á sig. Hann íhugaði að taka sér frí og spila ekki leikinn gegn KA.

Var ekki auðveld ákvörðun
„Þetta hefur verið mjög erfitt, bæði fyrir mig og alla í kringum mig. Það var ekki auðveld ákvörðun að fara með norður en ég ákvað að gera það á endanum," segir Emil í samtali við Fótbolta.net.

„Tíminn hefur verið nánast stopp hjá mér. Mér líður eins og það hafi liðið þrír mánuðir síðan þetta gerðist. Þetta tekur á en maður verður einhvernveginn að halda áfram."

Það var vel við hæfi að Emil hafi skorað í leiknum í gær en í hlaðvarpsþættinum Dr. Football sagði Hjörvar Hafliðason frá því að síðasti leikur Atla á leikmannaferli sínum hafi verið útileikur gegn KA, með HK 1994.

Deildin verið algjör þvæla
Emil segir að tilfinningin að skora jöfnunarmarkið í gær hafi verið ansi ljúf.

„Það var æðislegt. Það var mjög mikilvægt, við tókum rútu heim og það hjálpaði líka að fara ekki tómhentir. Það var aðeins betra skap í mönnum," segir Emil.

Gengi HK hefur verið mun betra en flestir bjuggust við. Liðið er í fimmta sæti Pepsi Max-deildarinnar með 26 stig.

„Við vissum alveg hvað við ætluðum að gera. Við höfum sýnt og sannað að við eigum alveg heima í þessari deild. Þessi deild hefur náttúrulega verið algjör þvæla en þetta hefur verið skemmtilegt tímabil. Það var alltaf markmið okkar að gera vel í þessari deild," segir Emil að lokum.
Athugasemdir
banner
banner